Hættumat uppfært vegna gossins

Eldgos er hafið á Sundhnjúksgígaröðinni, norðaustan við Sýlingarfell. Í morgun byrjaði mikil skjálftavirkni á svæðinu og var staðfest aðeins fyrir nokkrum mínútum að um kvikuhlaup hafi verið að ræða sem líklega myndi enda með eldgosi.

Hægt er að fylgjast með beinu myndstreymi frá svæðinu með því að smella hér.

Búið er að rýma Grindavík, Bláa lónið sem og Svartsengisvirkjun og er ekki talin stafa hætta af gosinu enn sem komið er.

Það skal ítrekað að íbúar í Grindavík eru beðnir um að láta vita af sér og hafa samband í síma 1717 til þess að hægt sé að skrásetja þá. Einnig er hægt að koma á aðalskrifstofu Rauða krossins í Efstaleiti 9 og skrá sig í móttökunni ef fólk kýs það frekar. Fólk sem er ekki búsett í Grindavík þarf ekki að hafa samband.

Fréttin verður uppfærð eftir því sem upplýsingar berast.

Uppfært kl.16:28 – Veðurstofan hefur uppfært hættumat í ljósi eldgossins og hraunflæðis frá gossprungunni. Þær breytingar eru á hættumatinu að hættan á Svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin) hefur verið aukin í mjög mikla (fjólublátt) vegna gosopnunar og mikils hraunflæðis. Hætta á Svæði 1 (Svartsengi) og 5 (norðan Svartsengis) hefur verið fært upp í mikla hættu (rautt) vegna hraunflæðis og gasmengunar. Svæði 4 (Grindavík) er óbreytt frá fyrra hættumati en auknar líkur eru á gosopnun innan svæðisins og hraunflæðis. Sjá kort hér að neðan.

Uppfært kl.14:52 – Gossprungan er nú orðin 3,4 kílómetrar á lengd og heldur áfram að lengjast til suðurs. Framleiðni gossins er um 1000 rúmmetrar af hrauni á sekúndu og hefur hraunflæðið náð Grindavíkurvegi.

Í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum sem var að berast segir eftirfarandi:

Eldgosið hófst klukkan 12:46 og er á svipuðum slóðum og fyrri gos á Sundhnúksgígaröðinni.   Grindavík, Bláa lónið og orkuverið í Svartsengi voru rýmd fyrir hádegi í dag.   Sú aðgerð gekk vel.  Viðbragðsaðilar eru við störf í Grindavík.  Þá dvelja enn þrír íbúar í Grindavík þrátt fyrir tilmæli viðbragðsaðila um að koma sér út úr bænum.  Slík viðbrögð eru ekki til eftirbreytni.  Ekki hefur komið til þess að lögregla hafi beitt valdi í þessum aðgerðum.  Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýst yfir neyðarstigi vegna eldgossins.  Fréttamönnum og blaðamönnum hefur verið hleypt nærri eldstöðvunum í fylgd viðbragsaðila.  Þeir eru með viðeigandi búnað og blaðamannapassa samkvæmt samkomulagi Blaðamannafélags Íslands við lögreglustjórann á Suðurnesjum.  Hamfarasvæðið er að öðru leyti lokað öðrum en viðbragðsaðilum.  Lokunarpóstur er við gatnamót Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar og sem fyrr á Nesvegi og Suðurstrandarvegi.

Uppfært kl.13:56 – Vísindafólk á Veðurstofu Íslands telja líklegt að um 45 mínútur séu í að hraun nái Grindavíkurvegi miðað við núverandi hraða.

Uppfært kl.13:14 – Fluglitakóði hefur verið færður á rautt, þangað til nánari upplýsingar um öskudreifingu berast. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila