Engar umsagnir um frumvarp um breytingar á námsstyrkjalögum fyrir hælisleitendur

Engar umsagnir bárust um frumvarp um breytingar á námsstyrkjalögum fyrir þá sem sækja um alþjóðlega vernd en málið var birt í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun ársins.

Frumvarpið hefur það að markmiði að bæta réttindi einstaklinga sem hafa hlotið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða til þess að þeir geti sótt um námsstyrki.

Á síðastliðnum árum hefur fjöldi einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða fjölgað umtalsvert á Íslandi. Með hliðsjón af þessari þróun hafa stjórnvöld leitast við að tryggja farsæla móttöku þessa hóps, til dæmis með því að fjölga þeim sveitarfélögum sem taka þátt í svonefndri samræmdri móttöku. Þar sem sum þessara sveitarfélaga eru staðsett á landsbyggðinni er ljóst að börn, sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi, munu í auknum mæli setjast að og stunda nám þar sem fjarlægðir á milli lögheimilis, fjölskyldu og skóla geta verið umtalsverðar.

Samkvæmt núgildandi lögum um námsstyrki eiga þessir nemendur ekki rétt á námsstyrk, þar sem skilyrði laganna er að viðkomandi sé íslenskur ríkisborgari eða ríkisborgari erlends ríkis sem íslenska ríkið hefur gert samning við.

Frumvarpið miðar að því að breyta lögunum á þann hátt að nemendur sem hafa hlotið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða geti einnig átt rétt á námsstyrkjum. Með þessu er stefnt að því að tryggja jafnræði meðal umsækjenda um styrk, óháð ríkisfangi þeirra.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila