
Loftslagssérfræðingar telja, að ropandi, prumpandi, að ekki sé talað um grenjandi búfénaður, svari fyrir 14,5% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum, sem sögð eru valda loftslagskreppunni. En jarðarbúar þurfa ekkert að óttast. Núna er nefnilega verið að gera tilraunir með að búa til „loftslagsvænar kýr“ með nýjum erfðabreyti. Meiningin er að glæpakýrnar hætti að ropa og prumpa metangasi út í andrúmsloftið en það hefur verið helsti glæpur kúa síðan á dögum Adam og Evu.
Reuters segir frá þessum tilraunum með nýjum loftslagserfðavísi. Draga á úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að sæða kýr með nautasæði með erfðaeiginleika sem framleiðir minna metangas. Í stuttu máli þýðir það, að kýr framtíðarinnar munu ropa og prumpa minna af metangasi og það muni leiða til kælingar loftslagsins og frelsa jarðarbúa frá stiknun.
Augljósir kostir með minna prumpi
Kanadíski mjólkurbóndinn Ben Loewith er einn af fyrstu kúabændum til að nota þessa aðferð. Reiknað er með að fyrstu loftslagsvænu kálfarnir fæðist næsta vor og verða með þeim fyrstu í heiminum með takmarkað rop og prump. Loewith segir við Reuters:
„Það er augljós hagnaður af því að rækta sérstaklega eiginleika minni losunar, svo framarlega sem við fórnum ekki öðrum eiginleikum.“
Kýrhausar Kanada fyrstir í heiminum
Erfðafyrirtækið Semex, sem seldi Loewith nautasæðið, segir að hin nýja kúategund gæti dregið úr losun metans frá kúm í Kanada um allt að 20-30% árið 2050. Verði tilraunirnar samkvæmt eftirvæntingum má búast við rop- og prumpulausum erfðavísi á fjölda dýrategunda í kjölfarið og jafnvel mannkynið sjálft til að snúa núverandi stiknun yfir í ástand sem minnir á paradís. Engin manneskja mun lengur þurfa að horfa grunsamlegum augum á samferðarmenn í lyftunni og verður það mikill sálfræðilegur léttir fyrir mannkynið.
Sumir mjólkursérfræðingar eru samt efins um þessa nálgun á lausn vandans. Þannig kemur Juha Nousiainen hjá finnska mjólkurfyrirtækinu Valio með þá samsæriskenningu, að ræktun rop- og prumpulausra nautgripa geti leitt til meltingarvandamála hjá viðkomandi.
