Erlendir glæpahópar misnota flóttamannakerfið og heimta verndartolla af flóttamönnum

Erlendir glæpahópar misnota flóttamannakerfið með því að flytja fólk til landsins á fölskum forsendum og krefja flóttamenn svo um reglulega verndartolla þegar komið er á áfangastað. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Vilhjálms Árnasonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Glæpahópar græða meira á að flytja flóttamenn milli landa en á fíkniefnaviðskiptum

Vilhjálmur segir að fyrst leiti glæpahóparnir uppi fólk í viðkvæmri stöðu í heimalandi þess, svo lofi þeir fólki betra lífi og segjast geta aðstoðað það við að koma því til Íslands þar sem aðstæður eru mun betri og taka fyrir það hátt gjald, þannig stýri þeir fólki hingað til lands. Svo þegar hingað er komið taki svo glæpahóparnir sinn skerf af því fé sem flóttamenn fá frá hinu opinbera til framfærslu. Þetta fé nýti svo glæpahóparnir til þess að fjármagna hluta starfsemi sinnar.

Fjárhæðirnar sem glæpahóparnir komast yfir með þessum hætti er oft meiri en þeir hafa af innflutningi fíkniefna, enda borgi flóttafólk glæpahópunum háar fjárhæðir fyrir skilríki og ýmis skjöl, auk þeirra verndartolla sem teknir séu af fólk, en þeir séu innheimtir af einstaklingum úr tengslaneti glæpahópa sem þeir hafa komið sér upp hér á landi. Eina leiðin fyrir flóttamenn að losna úr þessum vítahring sé að skaffa fleira fólk.

„við þurfum þá að átta okkur á því líka að þetta fólk er þá fast í glæpahringjum hér innanlands og við þurfum að hjálpa því að komast úr þessum aðstæðum, þarna berum við mikla ábyrgð“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að einmitt út af slíkri glæpastarfsemi sé nauðsynlegt að lögin um málaflokkin og framkvæmd þeirra séu nokkuð hörð og íhaldssöm, þannig sé hægt að draga úr því að hættunni sé boðið heim. Nauðsynlegt sé að mati Vilhjálms að geta sigtað út hvort fólk sé að koma hingað vegna raunverulegrar neyðar eða hvort það sé að koma hingað í gegnum slíka mansalshringi eða hvort um sé að ræða venjulegt fólk sem trúi því einlæglega að það geti öðlast betra líf hér og sé komið hingað þess vegna en sé þá í raun að koma hingað í gegnum rangt kerfi.

„ef við erum mjög íhaldssöm og stöndum fast í fæturna eins og hin Norðurlöndin í þessum málaflokki þá reyna glæpahóparnir síður að koma hingað en á meðan þeir vita að við séum með opnari heimildir eða minna eftirlit á landamærum þá nýta þeir sér allt slíkt“ segir Vilhjálmur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila