Erlendir iðnaðarmenn fá meistararéttindi á Íslandi án þess að standast kröfur

Undanfarið hefur skpast töluverð umræða meðal íslenskra iðnaðarmanna um hvernig erlendir iðnaðarmenn, sérstaklega frá Austur-Evrópu, hafi fengið íslensk meistarabréf án þess að fara í gegnum meistaraskóla eða standast þær kröfur sem íslensk lög kveða á um. Rætt var um málið í Menntaspallinu í dag en þar voru þeir Sigurður Már Guðjónsson formaður Landssambands Bakarameistara og Böðvar Ingi Guðbjartsson formaður landssambands Pípulagningameistara gestir Valgerðar Jónsdóttur. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Í þættinum kom fram að þessi staða hafi vakið hörð viðbrögð frá íslenskum iðnaðarmönnum, þar á meðal pípulagningar- og bakarameisturum, sem krefjast þess að lögum verði fylgt.

Mistök að erlend réttindi séu jafngild íslensku meistaranámi

Lögin kveði á um að til að öðlast meistararéttindi á Íslandi þurfi einstaklingar að ljúka sveinsprófi og meistaraskóla. Hins vegar virðist sem undanþágur hafi verið veittar fyrir einstaklinga sem ekki hafa farið í gegnum þetta kerfi en samt sem áður hafa fengið leyfi til að starfa sem meistarar. Segja þeir Böðvar og Sigurður að þetta stafi mögulega af mistökum í mati á erlendum réttindum þar sem ranglega sé litið á erlenda reynslu sem jafngildi íslensks meistaranáms.

Íslenskir nemendur settir í ósanngjarna stöðu

Íslenskir iðnaðarmenn hafa einnig bent á að slíkar undanþágur setji íslenska nemendur og fagmenn í ósanngjarna stöðu þar sem þeir þurfa að fara í gegnum strangt og langvarandi menntunarferli til að öðlast sömu réttindi. Þeir lýsa því yfir að það skapi ójafnrétti á vinnumarkaði þar sem erlendir aðilar fái sambærileg réttindi án þess að uppfylla sömu skilyrði.

Það þarf að endurskoða matsferlið á erlendum réttindum

Einnig hefur verið bent á að slíkt geti skaðað trúverðugleika iðngreina á Íslandi, þar sem gæði og fagmennska eru í hættu ef ekki er tryggt að allir sem starfa á sviðinu hafi farið í gegnum rétt menntunarferli. Gerðar hafa verið kröfur um að ferlið verði endurskoðað og að samráð verði haft við fagfélög íslenskra iðnaðarmanna við mat á erlendum réttindum.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila