Að undanförnu hafa erlendir netþrjótar verið að herja á Íslendinga með svikasímtölum. Þeir hringja úr íslenskum símanúmerum og þykjast vera fulltrúar frá Microsoft. Notendur Reddit hafa meðal annars sagt frá reynslu sinni af slíkum símtölum og í spjallþráðum um símtölin gefa menn hverjum öðrum ráð til þess að sporna við símtölunum.
Lögreglan sendi frá sér færslu á Facebook á dögunum þar sem hún varðaði við slíkum svikasímtölum. Að sögn lögreglu eru símtölin svokölluð „spoofing“ símtöl, þar sem svikararnir falsa númerin sem er hringt úr. Þeir kynna sig á ensku og segjast vera að hringja frá Microsoft. Svikararnir reyna síðan að telja fórnarlömbum sínum trú um að Microsoft hafi uppgötvað villu eða bilun í tölvunni þeirra og þurfi aðgang að tölvunni til að lagfæra vandamálið.
Einnig reyna þeir að sannfæra viðkomandi um að gefa frá sér persónuupplýsingar, svo sem ljósmynd af vegabréfi og kreditkortaupplýsingar.
CERT-IS, íslenska netöryggisstofnunin, varar við því að gefa óþekktum aðilum aðgang að tölvunni sinni, fylgja ekki fyrirmælum frá ókunnugum aðilum og loka á óvænt símtöl.
Almenningur er hvattur til að vera á varðbergi gagnvart slíkum svikum og hafa samband við lögreglu ef grunur leikur á svikasímtali.