Erum að súpa seyðið af mistökum Seðlabankans

Sú verðbólga sem við búum við nú er að hluta til komin vegna mistaka Seðlabankans sem hafi lækkað vexti of fljótt og hækkað þá of seint. Þetta segir Birgir Þórainsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnmála- og öryggisnefndar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu sem hlusta má á í spilaranum hér að neðan.

Birgir bendir á að á tímabili hafi verðbólgan verið komin niður í 0,75 % og þá hafi allt verið á blússandi siglingu, mjög margir hafi verið að taka húsnæðislán og mikil einkaneysla hafi verið í gangi og þá hefði þurft að grípa inn í. Það hafi hins vegar gerst alltof seint og segir Birgir að nú séu menn líklega að súpa seyðið af því.

Unga fólkið keypti íbúðir í stórum stíl og treysti Seðabankanum

Arnþrúður benti á að á árinu 2021 hafi unga fólkið flykkst með spariféð sitt í útborgun til íbúðakaupa sem þau séu líklega búin að missa núna og það sem lánað var á móti hafi í raun verið fé sem hafi verið eyrnamerkt og átti að fara í það að styðja við fyrirtækin en bankarnir hafi farið í það að lána húsnæðiskaupendum þar sem vextir voru lágir. Þetta sé eitt af klúðrinu sem framkvæmt hafi verið.

Vel hægt að bregðast við fasteignakrísu ungs fólks

Hann segir að það ætti vel að vera hægt að bregðast við fasteignakrísu unga fólksins en sá hópur sem er að kaupa sína fyrstu íbúð sé ekki stór sem komi til af því meðal annars að það fólk kemst ekki í gegnum lánshæfismat. Síðan séu íbúðir mjög dýrar og ekki sé um mikið magn íbúða á markaði yfirleitt.

Leigufélögin kaupa íbúðir sem losna

Birgir segir að hann hafi rætt við fasteignasala á dögunum sem tjáði Birgi að þær fáu íbúðir sem kæmu á markaðinn stöldruðu yfirleitt stutt við því leigufélögin væru að kaupa þær allar upp.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila