ESB áformar bann við reykingum og rafrettum utandyra

Miklar breytingar á lýðheilsustefnu gætu verið í farvatninu í Evrópu, þar sem Evrópusambandið (ESB) íhugar að banna reykingar og notkun rafretta utandyra í almenningsrýmum.

Samkvæmt drögum að tillögu sem lekið hefur út og Euronews greinir frá, er markmið nýrrar löggjafar sem nú bíður í smiðju Evrópusambandsins að draga úr heilsufarsáhættu sem tengist reykingum og óbeinum reykingum. Ef þessi tillaga verður að lögum gæti hún haft víðtæk áhrif á opin svæði í Evrópu, þar sem reyklaus svæði utandyra yrðu staðreynd.

ESB hefur lengi lagt mikla áherslu á aðgerðir til að bæta lýðheilsu, sérstaklega í baráttunni gegn reykingum. Nýju tillögurnar myndu byggja á núgildandi reglum sem banna reykingar á flestum almenningsstöðum innan dyra líkt og gert er hérlendis. Þannig myndu breyttar reglur gilda einnig um svæði utandyra, svo sem kaffihúsaveranda, biðskýla og dýragarða, samkvæmt upplýsingum úr gögnunum sem láku út.

Stuðningsmenn bannsins fagna

Þeir sem styðja bannið segja að það sé nauðsynlegt til að vernda þá sem ekki reykja, sérstaklega börn og einnig reyklausa eldri borgara, gegn óbeinum reykingum. Þá hafa áhyggjur af aukinni notkun rafretta vaxið, þar sem þær eru sagðar stuðla að því að ungt fólk byrji að reykja.

Bann kemur illa við kaffihúsamenninguna

Þó margir Evrópubúar fagni möguleikanum á hreinna lofti í almenningsrýmum, hefur tillagan vakið deilur meðal reykingafólks og eigenda fyrirtækja, sérstaklega í borgum með ríka kaffihúsamenningu eins og París og Róm. Bann við reykingum utandyra gæti þannig haft veruleg áhrif á félagslegar venjur og rekstur fyrirtækja. Fyrir marga heimamenn og ferðamenn, sem njóta þess að fá sér kaffi og sígarettu á sólríkum veröndum, gæti slíkt bann valdið menningarsjokki, þar sem reykingar eru órjúfanlegur hluti af daglegu lífi.

Áform Bretlands um sambærilegt bann

Áform ESB um bann eru þó ekki einsdæmi. Bretland hefur einnig til skoðunar svipaða löggjöf. Í ágúst 2024 tilkynnti breska ríkisstjórnin að hún væri að skoða möguleika á banni við reykingum utandyra, m.a. á sjúkrahúslóðum, utan við bari og jafnvel á götum. Þetta hefur vakið hörð viðbrögð, sérstaklega meðal eigenda kráa sem óttast að bannið gæti hrakið viðskiptavini í burtu. Þó að stuðningsmenn bannsins telji það geta minnkað álag á heilbrigðiskerfið og bætt umhverfið, óttast margir um þau áhrif sem slíkt bann hefði á tekjur fyrirtækja.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila