ESB-þingið greiðir atkvæði um að skilgreina allt Rússland sem „hryðjuverkaríki“

ESB-þingmaður Svíþjóðardemókrata Charlie Weimer hefur tekið frumkvæði að því í íhaldssama hópnum á ESB-þinginu að lögð verði tillaga á ESB-þinginu í næstu viku um að skilgreina allt Rússland sem hryðjuverkaríki (mynd skjáskot ESB).

Svíþjóðardemókratar leiðandi í að skilgreina Rússland sem hryðjuverkaríki

Í komandi viku mun ESB-þingið greiða atkvæði um, hvort skilgreina skuli allt Rússland með rússneska fólkinu sem hryðjuverkaríki. Svíþjóðardemókratar eru leiðandi í íhaldssama flokkshópnum ECR, sem rekur á eftir því, að ESB skilgreini alla Rússa sem hryðjuverkamenn. Þeir hafa fengið stuðning frjálslyndra. Í ályktun hópsins til ESB-þingsins segir, að hópurinn vilji:

„Reka alla rússneska sendiherra frá ESB, frá öllum öðrum alþjóðlegum stofnunum, þar á meðal frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, slíta öll diplómatísk tengsl við Rússland og flokka landið allt sem hryðjuverkaríki.“

ESB-þingmaður Svíþjóðardemókrata Charlie Weimer segir á Twitter (sjá neðst á síðunni), að „hann sem aðalsamningamaður íhaldshópsins eigi frumkvæði að ályktuninni.“

Frjálslyndir styðja ályktunina

Hugmyndin að tillögunni kom fram um miðjan október eftir mikla eldflaugaárás Rússa á úkraínska innviði, sem lýst var sem hefnd fyrir árás Úkraínumanna á Krímbrúna nokkrum dögum áður. Íhaldshópurinn leggur ályktunina um að flokka Rússland sem hryðjuverkaríki fyrir ESB-þingið þar sem sagt er að „hryðjuverk eru mikilvægur hluti af stríðsrekstri Rússa.“

Meirihluti sjö hópsformanna var andvígur því, að tillagan yrði tekin til umræðu en það var fellt í atkvæðagreiðslu á ESB-þinginu 17. október. ECR fær stuðning frá stóru frjálshyggjuhópunum tveimur EPP og Renew. 201 þingmaður taldi, að málið ætti að taka til umræðu á ESB-þinginu, 99 sögðu nei og 61 sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Andstaðan er mikil við ályktunina og kemur ekki síst frá jafnaðarmönnum og vinstrisinnuðum þingmönnum.

Nær tilbaka til 1990

Í tillögunni eru taldar upp fjöldamargar ástæður fyrir því að flokka eigi Rússland sem hryðjuverkaríki, fremsta ástæðan er yfirstandandi stríð í Úkraínu. Nær listinn aftur til seinni hluta tíunda áratugarins, áður en Vladimir Pútín varð forseti. Í september 1999 voru framin hryðjuverk í mörgum rússneskum borgum og voru hús jöfnuð við jörðu. Meira en 300 misstu lífið. Opinberlega var sagt, að verknaðurinn hafi verið framinn af íslamistum með bakgrunn í Sádi-Arabíu, tengdir Al-Qaeda.

Svíþjóðardemókratar og ECR-hópurinn aðhyllast hins vegar þá umdeildu kenningu, að það hafi í raun verið Pútín og sveitir innan rússnesku öryggisþjónustunnar, sem hafi staðið á bak við hryðjuverkin til að koma Pútín til valda. Í tillögunni er Pútín og Rússlandi einnig kennt um, að hafa skotið niður farþegaflugvél Malaysian Airlines 17, MH17, sumarið 2014. Rússum er einnig kennt um Smolensk-slysið fjórum árum áður. Flugvél frá pólska flughernum, meðal annars með forseta landsins innanborðs, hrapaði í apríl 2010, þegar reynt var að lenda í þéttri þoku í Smolensk í Rússlandi. Allir um borð dóu.

Rússnesku og pólsku flugslysaskýrslurnar benda báðar á mannlegan þátt óreyndra flugmanna sem mikilvægustu orsök flugslyssins. Í tillögunni fyrir ESB-þingið eru Rússar sagðir bera „beina ábyrgð“ á pólska flugslysinu, þótt enginn stuðningur sé fyrir því í opinberum skýrslum.

Flokka alla Rússa sem hryðjuverkamenn

Ekki er nóg með að sérstaklega sé tekið fram, að rússneski forsetinn, ríkisstjórnin, þingið og aðrar rússneskar ríkisstofnanir séu hluti rússneska „hryðjuverkaríkisins“ heldur er sú skýring gerð altæk fyrir alla Rússa eins og segir í greinargerð með ályktuninni:

„Hryðjuverkaaðferðirnar sem Pútín notar hafa víðtækan stuðning alls rússneska samfélagsins, þar á meðal fjölmiðla, fræðimanna, menningarvita, íþróttafólks og almennings, sem stendur sameinaður að baki leiðtoga sínum gegn hinum „sameiginlega óvini.“

Tillagan kallar á frystingu rússneskra eigna, einkaaðila jafnt sem opinberra, auk þess að handtaka og lögsækja „hvatamenn úr æðstu hópum rússnesku elítunnar.“ Frjálslyndi EPP hópurinn hefur lagt fram svipaða tillögu um að flokka Rússland sem hryðjuverkaríki, sem gengur þó ekki eins langt. Frjálslyndir vilja til dæmis ekki reka burtu alla rússneska diplómata né stimpla almenna rússneska borgara sem hryðjuverkamenn.

Búist er við því að ESB-þingið taki málið fyrir í næstu viku. Sjá nánar hér

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila