Site icon Útvarp Saga

ESB-þingið hótar að grípa til „viðeigandi ráðstafana“ ef Ungverjalandi leyfist að fara með forsæti ESB á næsta ári

Moderatar, Kristilegir demókratar og Frjálslyndir greiddu á fimmtudag atkvæði með ályktun gegn Ungverjalandi á ESB-þinginu. Svíþjóðardemókratar, samstarfsflokkur þeirra í ríkisstjórn Svíþjóðar, gagnrýndi ályktunina ekki síst vegna yfirstandandi umsóknar Svíþjóðar að Nató.

Forsaga ályktunarinnar er sú, að á seinni hluta næsta árs 2024 mun Ungverjaland gegna formennsku í ráði Evrópusambandsins. Margir sósíalískir og frjálslyndir leiðtogar í Vestur-Evrópu eru á móti því, að Ungverjaland fái að gegna formennskunni. Þessi öfl reyna að finna leiðir til að takmarka eða gera Ungverjalandi erfitt fyrir að leiða ESB-starfið til að marka óánægju þeirra með Ungverjaland, ríkisstjórn þess og Viktor Orbán forsætisráðherra.

ESB hefur fryst peningagreiðslur til Ungverjalands

ESB hefur fryst jafnvirði rúmlega 3.250 milljarða íslenskra króna í peningum sem ætlaðir voru Ungverjalandi. Þessi háa upphæð sem Ungverjaland á rétt til samkvæmt reglum ESB, er sögð geta haft verulegar afleiðingar fyrir landið. Í ályktuninni er spurt hvernig Ungverjaland „muni geta gegnt hlutverki sínu á trúverðugan hátt“ að fara með forsæti ESB á næsta ári. Er þess krafist að Evrópuráðið finni „viðeigandi lausn eins fljótt og auðið er“ á ungverska vandamálinu. Ef ráðið, sem samanstendur af þjóðhöfðingjum eða ríkisstjórnum sambandsins, bregst ekki við hótar þingið því að grípa til „viðeigandi ráðstafana“ í staðinn.

Búrókratar ESB í Brussel hafa á undanförnum árum kerfisbundið sakað Ungverjaland um að vera ekki nægjanlegt réttarfarsríki, þ.e.a.s. fylgja ekki blint skipunum frá Brussel. Stjórnmálamenn eru sagðir hafa of mikið vald yfir því hvaða dómarar og helstu lögfræðingar eru skipaðir, sem er sagt gera dómstólana háða.

Hafna ásökunum Brussel um að Ungverjaland sé ekki réttarríki

Gagnrýninni hefur fyrir löngu verið vísað á bug af hægriflokknum Fidesz í Ungverjalandi. ESB-þingmaðurinn og fyrrverandi forsætisráðherra László Trócsányi (Fidesz), sagði til dæmis fyrir tæpum tveimur árum:

„Á Evrópuþinginu eru nokkrir fulltrúar sem segja, að kerfi sem þeim líkar ekki við, séu ekki lögfræðilega réttmæt samfélög. Ég er lögfræðingur. Rökin: „Ungverjaland er ekki réttarríki“ eru mér óskiljanlegt. Ég tel þetta vera pólitíska ásökun.“

ESB vinnur fyrir George Soros

Gagnrýni ályktunarinnar á Ungverjaland spannar víðar en að fjalla einungis um hönnun dómskerfisins. Þetta snýst um að landið þurfi að vera örlátara í garð hælisleitenda, HBTQi+ fólks, fátækra og stórs hluta Róma-minnihluta landsins.

Liður 18 í ályktun ESB varðar stjórnmáladeilur á milli ungverskra stjórnvalda og ungversk-fædda auðkýfingsins George Soros. Soros stofnaði Mið-Evrópuháskólann (CEU) í Búdapest – einkarekinn háskóla sem af ríkisstjórn Fidesz var talinn vinna í fjandsamlegum tilgangi gegn landinu.

Frá og með 2017 setti ríkisstjórnin lög um störf háskóla í Ungverjalandi og rétt þeirra til að gefa út prófgráður. CEU var með „amerískan stíl“ og uppfyllti ekki lögin. Soros flutti þá hluti starfseminnar til Austurríkis. Samtímis eru valdamiklir stjórnmálamenn innan ESB undir þrýstingi að þvinga ungversk stjórnvöld til að breyta þessum lögum. Þessi deila hefur oft verið hæst á blaði búrókratanna í Brussel. Til dæmis sagði núverandi formaður EPP, Manfred Weber, við þýska Bild vorið 2019:

„Það er nauðsynlegt að CEU háskólinn, sem er studdur af George Soros, verði áfram til frambúðar í Búdapest. Að tilvist skólans þar sé tryggð og að þeir geti haldið áfram að veita bandarískar prófgráður.“

Svíþjóðardemókratar greiddu atkvæði gegn ályktuninni

Ályktunin gegn Ungverjalandi var samþykkt með meira en 3/4 þeirra ESB-þingmanna sem tóku afstöðu. Frá Svíþjóð greiddu aðeins meðlimir Svíþjóðardemókrata atkvæði á móti. Auk Tyrklands er Ungverjaland eina landið sem enn hefur ekki samþykkt Nató-umsókn Svíþjóðar. Svíþjóðardemókratar telja að fordæming á Ungverjalandi muni ekki greiða götu sænskrar inngöngu í Nató. og er spurt hvers vegna ríkisstjórnin reyni að hitta Erdogan Tyrklandsforseta á sama tíma og leita átaka við Ungverjaland.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla