Evrópa ekki tilbúin með varnir líði NATO undir lok

Ef svo fer að Donald Trump forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum,sem ekki hefur mikið álit á NATO, verði forseti má gera ráð fyrir að NATO sé mögulega búið að vera og Evrópa er ekki undirbúin á neinn hátt undir þá stöðu. Þetta segir Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi utanríkisráðherra, formaður Alþýðuflokksins og sendiherra en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu.

Jón segir að ef þessi staða kæmi upp væri staða Evrópa aftur á þeim stað að þurfa að vera sjálfri sér næg um varnir og það sé stórmál.

Evrópa ekki undirbúin fyrir eigin her

Aðspurður um hvort það sé ekki í undirbúningi að Evrópusambandið komi sér upp eigin her segir Jón svo ekki vera í raun þegar til kastanna kemur. Löndin hafi talað og talað um evrópskar varnir og öruggisstefnu en í raun ekkert gert sem máli skiptir, þau hafi til að mynda ekki samræmt vopnaiðnað sinn.

NATO árangursríkasta varnarbandalag heims

Jón Baldvin segir NATO einfaldlega vera árangursríkasta varnarbandalag í heimi og sér í lagi vegna þess að sú regla gildi að ef ráðist er á eitt ríki sé það túlkað sem árás á þau öll, í því felist mikill fælingarmáttur. Við séum nú að lifa á tímum þar sem árangurinn af afvopnunarferlinu hvað kjarnavopn varðar sé að hverfa.

Ísrael er kjarnorkuríki

Hann bendir á að það sé til dæmis aldrei talað um það að Ísraelsríki sem sé árásarríki sé kjarnorkuríki og búi yfir mjög öflugum kjarnavopnum. Staðan í heiminum er því svo að allt geti gerst.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila