Færeyingar beita óhefðbundnum aðferðum gegn mótmælendum hvalveiða

Færeyingar sem stundað hafa grindhvalaveiðar hafa undanfarin ár þurft að takast á við mótmælendur veiðanna líkt og Íslendingar glíma við þessa dagana. Færeyingar beita hins vegar óhefðbundnum aðferðum sem hafa dugað mjög vel gegn mómælendum. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Jens Guð bloggara í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag þar sem fjallað var um hvalveiðimótmæli.

Færeyingar sem ekki stunda aðrar hvalveiðar en grindhvalaveiðar notast við þá aðferð að reka stórar hvalavöður á land þar sem dýrunum er svo lógað og kjötið skorið og gefið íbúum á viðkomandi svæði. Mikill fjöldi manns safnast gjarnan saman í fjörunni og taka þátt í veiðum og vinnslu afurðanna. Síðastliðin ár hefur Paul Watson mætt með fyrrum félögum sínum í Sea Shepherd og reynt að trufla veiðarnar. Til dæmis hafa þeir reynt að reka vöðurnar til baka frá fjörunni en hafa ekki haft erindi sem erfiði og hafa því miður hvalir særst í tilraunum samtakana til þess að reka vöðurnar til baka og verið með djúp sár á húðinni eftir skrúfur sæþota samtakanna.

Fluttir með þyrlum á næstu eyjar svo þeir geti ekki truflað hvalveiðar

Hins vegar hafa Færeyingar brugðist við með því til dæmis að handtaka þá sem þetta reyna og koma þeim svo upp í þyrlu og fara með mótmælendurnar á næstu eyjur þar sem þeir eru svo skildir eftir og þá eiga þeir ekki þess kost að trufla veiðarnar frekar. Þá eru dæmi um að Færeyingar hafi gert báta og búnað mótmælenda upptæka.

Síðast þegar Sea Shepherd komu til þess að mótmæla hvalveiðum brugðust Færeyingar þannig við að brýnt var fyrir eyjarskeggjum að koma fram við þá eins og hverja aðra geti og gerðu Færeyingar það eins og þeim er von og vísa. Þetta varð til þess að meðlimir samtakanna vinguðust við eyjaskeggja og hrósuðu þeim í hástert og vakti það Paul Watson til mikillar reiði. Skipaði hann félögum sínum að umgangast Færeyinga sem óvini en allt kom fyrir ekki og óhlýðnust meðlimir samtakanna Watson. Því fór svo að Watson sagði skilið við sín eigin samtök og stofnaði önnur samtök en þeim samtökum tilheyra einmitt konurnar tvær sem hafa staðið í varðturnum hvalbátanna í Reykjavíkurhöfn undanfarna sólarhringa.

Jens segir að þeir sem tilheyri slíkum samtökum séu oftar en ekki afkomendur ríkra foreldra sem ekki þurfi að vinna og hafi því lítið annað fyrir stafni en standa í slíkum mótmælum. Þá hafa slík samtök oft reynt að fá með sér í lið frægt fólk eins og leikara en frægt er þegar Sea Shepherd fengu til liðs við sig leikkonuna Pamelu Anderson til mótmæla í Færeyjum. Færeyingar létu þó Pamelu ekki slá sig út af laginu og fljótlega eftir Færeyjarferðina hætti hún mótmælum fyrir samtökin.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila