Færeyjar með mikið forskot á Ísland í lífsgæðum og lífskjörum

Færeyjar eru með mikið forskot á Ísland í lífsgæðum og lífskjörum þrátt fyrir smæð sína. Þetta segir Jens Guð bloggari en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar í Síðdegisútvarpinu en hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan. Í þættinum vitnaði Jens í nýja skýrslu frá Efnahagsstofnun í Þýskalandi þar sem lífskjör í ýmsum löndum eru borin saman. Samkvæmt skýrslunni er kaupmáttur í Færeyjum um þriðjungi hærri en á Íslandi, sem undirstrikar óvenjulegan mun milli þessara nágrannaþjóða.

Færeyingar njóta ekki aðeins hærri kaupmáttar heldur eru lífsgæði þeirra almennt betri. Skýrslan frá Þýskalandi tók til fjölmarga þætti sem tengjast lífsgæðum, þar á meðal fæði, húsnæði, fatnað, skemmtanir og heilsugæslu. Færeyingar, sem eru aðeins tæplega 55.000 talsins, virðast hafa náð betri nýtingu á takmörkuðum auðlindum sínum og tryggt stöðugt hagkerfi með færri sveiflum en Ísland

Betri kaupmáttur í Færeyjum en á Íslandi

Þrátt fyrir að Ísland hafi aðgang að fjölmörgum náttúruauðlindum og stærri vinnumarkað, sýna tölur að Færeyingar búa við meiri kaupmátt og hafa betri kjör almennt. Þetta kemur á óvart í ljósi þess að smærri samfélög eru oft talin eiga erfiðara með að ná upp hagvexti vegna minni markaðsstærðar og samkeppni. Þvert á móti hefur Færeyjum tekist að halda verðlagi á vörum og þjónustu lægra en á Íslandi, jafnvel með færri aðila á markaði. Þetta dregur í efa fullyrðingar um að smæð leiði sjálfkrafa til verri samkeppnishæfni.

Glæpir mun sjalgæfari í Færeyjum en hér á landi

Annar mikilvægur þáttur í þessum samanburði er glæpatíðni. Glæpir eru mun sjaldgæfari í Færeyjum en á Íslandi. Þar er samfélagið þéttara og mikil áhersla lögð á samfélagslega samheldni og félagslegt öryggi. Færeyingar hafa náð að byggja upp traust samfélag með litlu álagi af alvarlegum glæpum, sem á móti eykur lífsgæði fólks. Það er athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess að Ísland glímir við aukna tíðni afbrota, þar á meðal tilkomu glæpagengja og alvarlegra ofbeldisglæpa, sem hefur skapað óöryggi á undanförnum árum.

Stjórnkerfið í Færeyjum sveigjanlegt og skilvirkt

Þá er stjórnkerfið í Færeyjum mun sveigjanlegra og skilvirkara en það íslenska. Færeyingar hafa sýnt að þeir eru fljótir að taka ákvarðanir og framkvæma þær, hvort sem það snýr að innviðauppbyggingu, viðskiptum eða samgöngum. Þeir hafa meðal annars tekist á við húsnæðisskort með skýrari og markvissari aðgerðum en á Íslandi, en þar hafa áætlanir um húsnæðisuppbyggingu dregist í mörg ár

Bættar samgöngur með jarðgöngum

Sem dæmi má nefna að Færeyingar hafa verið duglegir að grafa jarðgöng á milli eyja til að bæta samgöngur. Þeir hafa nýverið undirbúið gerð 26 km langra neðansjávarganga sem munu verða lengstu göngin í Færeyjum. Íslendingar hafa á meðan dregið lappirnar varðandi stórar samgönguframkvæmdir svo sem Sundabraut, sem hefur verið rætt um í áratugi en án niðurstöðu.

Enginn fasteignaskattur í Færeyjum en samt húsnæðisskortur

Húsnæðisskortur er eitt af stærri samfélagslegum vandamálum í Færeyjum, sérstaklega vegna fjölgunar íbúa. Vegna þess hve eftirsótt það er að búa í Færeyjum hefur fasteignaverð hækkað hratt, þó fasteignaskattur sé ekki til staðar. Færeyingar eiga oft tvö hús, þar sem fasteignaskattleysi gerir það hagkvæmara að eiga og viðhalda fleiri eignum. Þessi stefna hefur þó einnig leitt til þess að húsnæðisskortur hefur orðið viðvarandi vandamál, sem stjórnvöld reyna nú að takast á við með sértækum aðgerðum.

Sambandsflokkurinn í Færeyjum hefur lagt fram tillögur til að bæta aðgang að fasteignamarkaði og leysa úr þessum vanda. Þessar tillögur snúast meðal annars um að leggja sérstakt gjald á banka og tryggingafélög til að fjármagna aukið húsnæðisframboð.

Ísland getur lært margt af færeysku samfélagi.

Jens bendir á að Ísland gæti lært margt af færeysku samfélagi. Færeyingar hafa náð að halda stöðugu efnahagskerfi með minni sveiflum, jafnvel í krefjandi alþjóðlegu umhverfi. Einnig hafa þeir sýnt fram á að samstaða innan samfélagsins og skilvirk stjórnsýsla getur skilað betri lífsgæðum og hærri kaupmætti, þrátt fyrir smæð og færri auðlindir

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila