
Forseti Alþingis hefur fallist á kröfu Samfylkingarinnar um að halda sérstakan þingfund um stjórn efnahagsmála.
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar óskaði eftir því við forseta í ræðu á þingfundi í dag að halda slíkan fund en í ræðu sinni lýsti Kristrún yfir þungum áhyggjum sínum með stöðu efnahagsmála.
„Það eru nokkrir dagar eftir af þinginu. Nú sjáum við vexti í tæpum 9% og 10% af verðbólgu. Og það þarf ekki fleiri fundi í þjóðhagsráði eða bið eftir niðurstöðum húsnæðishóps til að átta sig á að það þarf að ráðast í aðgerðir sem taka gildi núna á næstu vikum. Við getum ekki beðið eftir niðurstöðu um fjármálaáætlun fyrir árið 2024 til að bregðast við ástandinu.“
og áfram hélt Kristrún:
„Til hvers er ríkið ef ekki til að bregðast við ástandi sem þessu? Til að dreifa högginu af þessu áfalli sem nú ríður yfir. Við í Samfylkingunni erum boðin og búin til að styðja allar þær tillögur sem koma fram til að styrkja ungt fólk, lágtekjufólk, barnafjölskyldur, sem eru að fá þetta í fangið núna. Það eru það eru þingmál sem geta komið inn í þingið þar sem við getum tekið á þessu ástandi. Það munum við styðja og ég vona að hæstvirtur forseti verði við beiðni okkar um umræðu um þessi mál áður en þinginu lýkur og að við fáum aðgerðir.““
Í svari forseta kom fram að líkur væru á því að fundurinn yrði næstkomandi þriðjudag.