Farþegalistar tæki fyrir löggæsluna til að bera kennsl á glæpamenn

Það er mikið áhyggjuefni að flugfélög skili ekki farþegalistum því þeir eru mikilvægt tæki til þess að bera kennsl á hvort í flugvélum, sem koma hingað til lands, leynist einstaklingar sem séu með brotaferil á bakinu eða jafnvel eftirlýstir. Þessu verður að koma í lag og ekki útilokað að sett verði viðurlög við því að skila ekki slíkum listum. Þetta sagði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Bjarni segir mikilvægt að listunum sé skilað því þetta sé hluti af landamæragæslunni og sé listum ekki skilað verði landamæragæslan að bregðst við með því að óska eftir því við landganginn að farþegar sýni skilríki sín við komuna til landsins. Bjarni segir að hann sjálfur hafi orðið var við slík tilvik því þegar hann var að koma frá Vínarborg á dögunum hafi við komuna til landsins staðið fjórir lögreglumenn við landganginn og beðið farþega um að sýna skilríki. Þetta sýni að mati Bjarna að landamæragæslan hafi verið efld.

Landamæragæslan mikið öryggismál fyrir þjóðina

Hann segir að hann hafi vitneskju um að hundruð manns hafi verið vísað frá landinu á grundvelli slíks eftirlits á undanförnu ári. það sé ekki svo að gæslan sé ekki til staðar heldur sé mikilvægt að landamæragæslan sé í samræmi við þann gríðarlega fjölda sem fari í gegnum alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Ísland þurfi að aðlaga sig þessum breyttu aðstæðum og tryggja þarf nægan mannskap svo hægt sé að viðhafa eftilitið með myndarbrag því um mikið öryggismál sé að ræða fyrir þjóðina. Það sé því miður staðreynd að hingað til lands séu að koma glæpagengi sem séu beinlínis gerð út til að fremja hér glæpi. Því sé afar mikilvægt að spyrna við en ekki bara vona það besta.

Flugfélögin geta átt von á viðurlögum

Aðspurður um hvort flugfélög sem ekki skili farþegalista eigi að fá lendingarleyfi segir Bjarni að nauðsynlegt sé að bregðast við því og Innviðaráðuneytið sé með málið til skoðunar. Þar reyni á að hvort fullnægjandi lagaheimildir séu til staðar til þess að beita þvingunarúrræðum en skoðun Bjarna sé sú að þeir sem ekki fari að reglunum eigi að fá refsingu fyrir það.

Hlusta má á ítarlegri umræður um landamæragæslu í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila