Arnþrúður Karlsdóttir ræddi við Grím Grímsson yfirlögregluþjón rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um skipulagða glæpastarfsemi eins og hún birtist þessi misserin. Sagði Grímur að lögreglan ásamt ríkislögreglustjóra hafi bent á það um árabil að hér starfi erlendar mafíur, auk innlendra og erlendra glæpahópa og það er einfaldlega staðreynd sem verður að horfast í augu við og landsmönnum stafi hætta af. VIðtalið má hlusta á í spilaranum hér að neðan.
Fíkniefnasmygl, mansal, netsvik,vændi og barnaníð skipulögð glæpastarfsemi
Grímur segir brot skipulagðra glæpahópa á Íslandi snúist um smygl á fíkniefnum, mansal, netsvikum og vændi, auk þess sem barnaníð á netinu flokkist undir þessa starfsemi einnig. Hann segir þessi brot skila glæpamönnum verulegum fjárhagslegum ávinningi.
Fólk flutt til landsins sem sérfræðingar til að blekkja yfirvöld
Smyglið á fíkniefnum er stór þáttur í starfsemi þessara glæpahópa að sögn Gríms. Þeir flytji inn fíkniefni eins og kannabis, amfetamín og kókaín, og framleiða jafnvel sum þessara efna innanlands. Þessi fíkniefni eru svo seld á svörtum markaði, sem skilar glæpagengjunum gríðarlegum hagnaði. Smygl á fólki og mannsal er einnig stór þáttur í starfsemi glæpahópanna, þar sem fólk er látið vinna undir ómannúðlegum aðstæðum, oft án þess að fá sanngjarna greiðslu. Þá sé oft um það að ræða að fólk sem sé selt með þessum hætti hingað til lands sé ranglega titlaðir sérfræðingar í sínu fagi, það sé gert í þeim tilgangi að blekkja yfirvöld.
Fólk platað til að senda peninga á erlenda bankareikninga
Netbrot, eins og svikapóstar og netsvik, eru einnig hluti af skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Þessir glæpir snúast oft um að blekkja fólk til að láta af hendi peninga í gegnum blekkingar á netinu og tengjast fólki persónulega. Glæpamenn hafa þjálfað sig í að nýta sér tæknina til að fremja þessi brot og hafa náð að blekkja fólk til að senda stórar fjárhæðir sem svo hverfa á erlenda bankareikninga.
Þótt vændi sé ekki bannað þá er það ekki endilega löglegt
Vændi er enn einn þáttur í starfsemi skipulagðra glæpahópa á Íslandi. Grímur greindi frá því að vændisstarfsemi sé einnig til staðar, oft í tengslum við mannsal, þar sem konur eru neyddar til að stunda vændi. Þó að selja vændi sé ekki bannað á Íslandi þá er það ekki þar með sagt að það sé löglegt og lögreglan hefur afskipti af þessum málum þegar hún fær upplýsingar um slíka starfsemi. Lögreglan reynir þá að hafa samband við þessar vændiskonur og kanna hvort þær séu fórnarlömb mannsals eða ekki. Aðspurður sagði Grímur að vændiskonurnar kæmu gjarnan til landsins sem almennir ferðamenn.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan