Fischer hrökk alveg í kút – og lék mjög slökum leik.

Helgi Ólafsson stórmeistari í skák og skólastjóri Skákskóla Íslands var gestur í þættinum Við skákborðið í dag en þar ræddi Kristján Örn Elíasson við Helga. Helgi segir frá ýmsu sem á daga hans hefur drifið á skákferlinum, m.a. Ólympíuskákmótum, Skákskólanum og samskiptum sínum við Fischer en skákáhugamenn ættu alls ekki að láta þennan frábæra þátt fram hjá sér fara. Viðtalið við Helga er í tveimur þáttum og er þetta síðari þátturinn. Hér er slóð á alla þætti Við skákborðið.

Í þættinum segir Helgi frá því þegar hann heimsótti Fischer á heimil hans að Klapparstíg en Fischer hafði boðið honum þangað til að tefla við sig Fischer Random skák sem hann fann upp. Á íslensku hefur slík tegund skákar verið kölluð Fischer-slembiskák.

Helgi segir svo frá þegar þeir sátu að tafli:

„Ég var núbúinn í golfi og fékk alveg svakalegan vöðvasamdrátt og það var mjög vont. Ég sat þarna fastur við eldhúsborðið og hrópaði upp og hann hrökk alveg í kút og lék – mjög slökum leik. Ég vann þá skák!“

Helgi segir að umfjöllun um skák og skákmenn sé mun minni nú en á árum áður. Hann segist merkja talsverða breytingu í þessum efnum sé miðað við þá tíma þegar hann var á hátindi ferils síns. Þá hafi skákmenn einnig verið duglegir að skrifa um skák í dagblöðin.

„Við vorum mjög mikið í fjölmiðlum og blöðum á þessum tíma og skrifuðum reyndar mikið í blöðin líka. Bæði ég, Jón L. og Margeir Pétursson skrifuðum mikið og þetta fékk alveg heilmikla athygli,“ segir Helgi.

Helgi skrifar enn um skák og er meðal annars umsjónarmaður Skákþáttar Morgunblaðsins en annar stórmeistari, Helgi Áss Grétarsson, sér um skákdálkinn í blaðinu. Aðspurður um hversu lengi hann hefur verið að skrifa um skák fyrir Morgunblaðið segir Helgi að árið 2006 hafi verið haft samband við sig og allar götur síðan hafi hann reglulega skrifað um skák í blaðið. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Helgi starfar á ritstjórnum dagblaðanna því áður var hann hjá Þjóðviljanum.

Hér fyrir neðan má hlusta á fyrri viðtalsþáttinn við Helga.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila