Setja 257 milljónir í að bæta stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi

Gert er ráð fyrir að 275 milljónum verði varið til fiskeldismála á næsta ári, í þeim tilgangi að bæta stjórnsýslu Matvælastofnunar í málaflokknum og það eftirlit sem stofnunin sinnir einnig. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var á dögunum.

 Jafnframt verður féð nýtt til þess að setja á fót rafræna gátt sem ætluð er til að birta opinberlega tilteknar upplýsingar um greinina en slíkar gáttir eru þekktar meðal annars hjá frændþjóðum í Færeyjum og Noregi.

Þá er einnig gert ráð fyrir auknu fjárframlagi til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis en sjóðurinn hefur það meginmarkmið að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis.

Eins og kunnugt er hefur verið mikill núningur milli fiskeldisfyrirtækja annars vegar og umhverfisverndarsinna hins vegar en umhverfissinnar telja mikla mengun stafa ffrá slíku eldi, og þá hafa menn bent á hættuna á kynblöndum eldislax við aðra stofna ef fiskur sleppur úr kvíum.

Vonast stjórnvöld til þess að aukið fjárframlag til málaflokksins muni nýtast til þess að bæta úr þeim vanköntum sem bent hefur verið á.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila