Fjárhagslegir hagsmunir sænskra vopnaframleiðenda vega þungt í Nató-umsókn Svíþjóðar

Hermaður skýtur nútíma sænsku eldskeyti til að granda skriðdrekum. Svíar eru framarlega í nútíma vopnum og hafa Úkraínumenn fengið slík vopn í tugþúsundatali bæði frá sænsku og bresku ríkisstjórnunum. Sænsk vopnafyrirtæki hafa haft fulltrúa með á samningafundum um Nató-aðild Svíþjóðar og Finnlands (mynd breska varnarmálaráðuneytið OGL v 1.0).

Fyrirtæki Wallenberg samsteypunnar þrýsta á Nató – aðild Svía og Finna

Sex mikilvæg fyrirtæki innan Wallenberg samsteypunnar voru í för með Ulf Kristersson (M) forsætisráðherra Svíþjóðar, þegar hann fór nýlega til Tyrklands til að reyna að mýkja Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta varðandi sænsku NATO-umsóknina, að sögn Dagen Industri DI. Fulltrúar Wallenberg samsteypunnar segja það „mikilvægt“ að Svíþjóð gangi í herbandalagið Nató undir forystu Bandaríkjanna.

Expressen sagði frá því þegar í apríl, að Wallenberg hafi tekið þátt í „leynifundi“ í Helsinki með sænsku og finnsku ríkisstjórnunum varðandi NATO. Jackob Wallenberg, stjórnarformaður samtaka sænska viðskiptalífsins sagði í yfirlýsingu í maí:

„Bæði samtökin Viðskiptalíf Finnlands og Sænskt viðskiptalíf hafa stutt ákvarðanir varðandi umsókn landa okkar um aðild að Nató. Með finnskri og sænskri aðild geta öll Norðurlöndin myndað sameiginlega sterka norræna blokk, sem getur veitt öllu Eystrasaltssvæðinu það öryggi, sem er forsenda starfhæfs og öflugs fyrirtækjareksturs.“

Gegna mikilvægu hlutverki í samningaferlinu

Að sögn Dagens industri gegndi Wallenberg-fjölskyldan „mikilvægu hlutverki“ þegar Ulf Kristersson forsætisráðherra ferðaðist nýlega til Tyrklands til að reyna að „mýkja tyrkneska forsetann“ að hleypa Svíþjóð inn í Nató eins og blaðið orðar það. Håkan Buskhe, forstjóri Wallenbergfjárfestingarfyrirtækisins FAM, segir við Di.

„Það er mikilvægt að við göngum í Nató og það er mikilvægt fyrir fyrirtækin okkar.“

Að sögn Buskhe hefur Wallenberg-samsteypan átt gott samband við Tyrkland mjög lengi og haft fyrirtæki í landinu í yfir hundrað ár. Ekki færri en sex mikilvæg fyrirtæki Wallenberg-samsteypunnar eru sögð hafa tekið þátt í fundinum með tyrkneskum stjórnvöldum.

Í apríl benti Expressen á, að aðild Svía að Nató gæti haft verulegar þýðingu fyrir hluta fjármálarisa í Svíþjóð. Hver á til dæmis varnarmálafyrirtækið og vopnaframleiðandann Saab? Jú, Wallenberg-hjónin. Í gegnum öflugt fyrirtæki sitt Investor, eru þau stærsti eigandi fyrirtækisins. Stjórnarformaður Saab er Marcus Wallenberg. Saab er einnig sagt hafa tekið þátt í NATO-fundinum í Helsinki. Að sögn Expressen myndi aðild Svía að NATO opna nýja aðlaðandi markaði fyrir fyrirtækið, markaði sem það hefur ekki aðgang að í augnablikinu.

Vopnaframleiðslan blómstrar og þarf að ráða fleiri starfsmenn

Saab hefur framleitt Pansarskott 86, sem er einnota eldskeyti gegn skriðdrekum og hermaður hefur á öxl sér þegar skotið er. Sænska ríkið hefur sent a.m.k. 10.000 slík eldskeyti til Úkraínu. Saab hefur einnig þróað nútímalega útfærslu á skriðdrekaeldskeytinu NLAW „Next-generation Light Anti-tank Weapon“ og hafa Bretar sent þúsundir þeirra til Úkraínu. Sænski vopnaiðnaðurinn er á fullu eftir að Úkraínustríðið hófst. Sænska ríkisútvarpið P4 Gautaborg sagði í byrjun nóvember:

„Varnariðnaðurinn er í fullum gangi – Saab er að ráða í fullt starf í Gautaborg.“

Markus Borgljung hjá Saab Radar Solutions segir við Sveriges Radio:

„Við höfum gríðarlega þörf fyrir að ráða fólk. Við höfum ráðið 250 manns á þessu ári fram til þessa og við höfum áframhaldandi þörf fyrir um það bil 150 manns í viðbót.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila