Fjölgun starfa í heilbrigðisþjónustu helsta ástæða fleiri starfa hjá ríkinu

Fjölgun stöðugilda í heilbrigðisþjónustu er helsta ástæða fjölgunar starfa hjá ríkinu undanfarin ár. Næst mest hefur aukningin orðið í löggæslu.

Heilbrigðisráðuneytið tók saman upplýsingar um þróun starfa hjá ríkinu og kom þá þessi staða í ljós. Þannig fjölgaði stöðugildum um rúm 2.500 á tímabilinu 2018-2023 og má rekja 65% fjölgunarinnar til heilbrigðisþjónustu, sem er sú þjónustustarfsemi ríkisins sem krefst mests mannafls. Árið 2023 voru 43% allra stöðugilda ríkisins í heilbrigðisþjónustu og hafði hlutfallið hækkað úr 38% árið 2015. 

Eins og myndin sýnir er næstmesta fjölgun starfa í löggæslu, en einnig hafa háskólarnir aukið talsvert við mannskap sinn. Störfum í opinberri stjórnsýslu hefur fjölgað í takt við íbúa. Minnst hefur fjölgun starfa verið í framhaldsskólum. Þar hefur stytting framhaldsskólans frá og með árinu 2015 áhrif, en hún dró úr eftirspurn eftir framhaldsskólakennurum í kjölfarið.

Jafnvel þótt störfum í heilbrigðisþjónustu hafi fjölgað mikið undanfarin misseri þá er enn að merkja mestan vinnuaflsskort í greininni. Árið 2023 voru laus störf, sem hlutfall af fjölda starfandi, hvergi fleiri en í heilbrigðisþjónustu eða 25%. Löggæslan kom þar næst með 16%. Þá var aðsókn sömuleiðis langtum minni í störf í heilbrigðisþjónustu, en að meðaltali bárust þrjár umsóknir um hvert auglýst starf.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila