Fjórir handteknir vegna hnífaárásarinnar í Bankastræti Club

Fjórir hafa verið handteknir í kjölfar hnífaárásarinnar sem átti sér stað í gærkvöld á skemmtistaðnum Bankastræti Club. Árásin var samkvæmt heimildum þaulskipulögð hefndaraðgerð og tengist einhvers konar uppgjöri í undirheimum og eru þeir þrír sem urðu fyrir árásinni alvarlega slasaðir en þó ekki í lífshættu. Eins og Útvarp Saga greindi frá í gærkvöld var aðdragandi árásarinnar á þann veg að hópur grímuklæddra manna stormaði inn á skemmtistaðinn og stakk þar annan hóp manna og flúði svo við búið af vettvangi í bifreið sem virtist hafa verið lagt fyrir utan í þeim tilgangi að nota sem flóttabifreið.

Sérsveit lögreglu kom á staðinn tl aðstoðar óbreyttum lögreglumönnum en leit hófst þá þegar að árásarmönnunum. Samkvæmt upplýsingum lögreglu fóru fram húsleitir samtímis handtökunum en ekki fæst uppgefið hvort hald hafi verið lagt á muni í tengslum við húsleitirnar. Rannsókn málsins er enn á frumstigi samkvæmt upplýsingum lögreglu og ekki liggur fyrir hvort yfirheyrslur séu hafnar yfir þeim handteknu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila