Fleiri farnir að sjá í gegnum eineltis og slaufunarmenninguna

Það andrúmsloft sem nú er í samfélaginu gefur til kynna að fleiri séu farnir að sjá í gegnum þá eineltis og slaufunarmenningu sem hefur viðgengnist gagnvart þeim sem aðhyllist ekki rétttrúnaðinn sem tröllriðið hefur samfélaginu undanfarin ár. Rétttrúnaði þar sem mönnum er slaufað hægri vinstri og settar fram ásakanir og þeir dregnir í svaðið af dómstóli götunnar. Þetta segir Frosti Logason fjölmiðlamaður og stofnandi hlaðvarpsins Brotkast.is en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Frosti segir að það virðist sem svo að samfélagið hafi sofnað á verðinum og gleymt þeim gildum sem það byggir á. Þeim gildum að menn séu saklausir uns sekt sé sönnuð og að það sé ástæða fyrir því að fólk vilji ekki hafa samfélagið þannig að fólk sé dregið hér út á götur og tekið af lífi af dómstóli götunnar, þeim reglum var hreinlega ýtt til hliðar.

Ráðist að mönnum ef þeir tjá sig um eineltið

Heiftin hafi verið svo mikil í þessum málum að þeir sem hefðu átt að stíga fram fyrir skjöldu hafi einfaldlega staðið á hliðarlínunni og ekki þorað að segja neitt vegna ótta við að vera næstir í röðinni og yrðu teknir fyrir eins og gert hafi verið við mjög marga. Það sé einmitt þess vegna sem eineltis og slaufunarmenningin náði þessum mikla skriðþunga.

Fólk vill ekki að dómstóll götunnar ráði för

Svo kom að því að samfélagið virðist hafa vaknað úr rotinu og hafi farið að hugsa að það hafi verið einhver ástæða fyrir því að fólk hafi ekki viljað hafa samfélagið þannig að dómstóll götunnar væri látinn ráða för. Frosti segir að hann finni það að sá ofstækishópur sem hafi staðið fyrir slaufunum og einelti hafi ekki sama slagkraft og hann hafði áður.

Hávaðasamir hópar fá ekki athygli núna

Oft hafi þessi hópur samanstaðið af reiðum vansælum konum sem fóru mikinn á Twitter og sama virtist hvað þær sögðu að ákveðnir fjölmiðlar sem aðhylltust þennan kima samfélagsins virtust lepja það allt eftir gagnrýnislaust. Nú séu hins vegar ekki eins margir sem gefi þessum hávaðasömu hópum eins mikinn gaum.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila