Flestar götur Reykjavíkur aðeins sópaðar tvisvar á ári

Flestar götur Reykjavíkur eru aðeins sópaðar tvisvar sinnum á ári. Þetta sést á korti verkáætlunar Reykjavíkurborgar frá 2020 – 2021. Á kortinu sem fylgir hér að ofan má sjá hvaða götur það eru sem aðeins eru sópaðar tvisvar en um er að ræða all flestar íbúðargötur borgarinnar. Stofnleiðir eru sópaðar fjórum sinnum og umferðarléttari brautir þrisvar. Þá eru helstu leiðir einungis þvegnar með vatni einu sinni á ári.

Eins og kunnugt er hefur svifryksmengun ítrekað mælst yfir mörkum í borginni og því má velta fyrir sér hvort borgin hafi reynt að grípa til aðgerða gegn þeirri stöðu, til dæmis með því að sópa götur oftar en verið hefur. Því er hins vegar ekki til að dreifa eins og sjá má á verkáætlun frá því á síðasta ári sem sjá má með því að smella hér.

Vegagerðin hefur látið kanna samsetningu svifryksins í þeim tilgangi að kanna uppsprettu þess og í skýrslu sem birt var árið 2017 og var byggð á rannsókn Vegagerðarinnar kom í ljós að samsetning svifryksins var eftirfarandi:

  • Malbik 48.8%,
  • sót 31,2%,
  • jarðvegur 7,7%,
  • bremsur 1,6%
  • salt 3,9%.

Í skýrslunni segir einnig:

„Svifryk er sá mengunarþáttur sem hefur hvað mest áhrif á heilsu almennings sem rekja má til mengunar í borgum. Svifryk (PM10) eru agnir sem eru minni en 10 míkrometrar (µm) að stærð og svífa auðveldlega um í andrúmsloftinu og eiga því greiða leið ofan í öndunarfærin. Eftir því sem rykið er fínna er það talið hættulegra heilsu fólks þar sem það berst lengra niður í fínni vefi lungnanna þar sem það
safnast upp og getur valdið meiri skaða.“

Borgaryfirvöld hafa undanfarin ár lítið sem ekkert aðhafst í baráttunni við svifryk annað en að hvetja fólk til þess að nota ekki nagladekk sem vissulega hefur borið nokkurn árangur. Mörgum finnst þó ekki nóg að gert og hafa tillögur um að setja takmarkanir á umferð vegna svifryksmengunar fallið í grýttan jarðveg. Margir hafa bent á að með þéttingu byggðar hafi grænum svæðum innan borgarmarkanna fækkað og loftgæði þar með spillst samhliða því.

Deila