Flokkur fólksins leggur fram frumvarp um leigubremsu

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Inga Sæland formaður og þingmaður Flokks fólksins hefur, ásamt öðrum þingmönnum Flokks fólksins, lagt fram frumvarp um úrbætur á húsaleigulögum og leigubremsu.

Í frumvarpinu er lagt meðal annars til að verð á húsaleigu skuli ekki hækka umfram hækkanir á vísitölu neysluverðs og ekki oftar en einu sinni á ári hverju.

Þá er jafnframt lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um leigubremsu til loka árs 2024.

Í þriðju grein frumvarpsins segir:

„Fjárhæð leigu á íbúðarhúsnæði skal ekki taka breytingum til hækkunar til ársloka 2024, þrátt fyrir samningsskilmála um verðtryggingu eða aðrar verðbreytingar. Við framlengingu, endurnýjun og gerð nýrra leigusamninga um íbúðarhúsnæði sem taka gildi fyrir árslok 2024 er óheimilt að hækka fjárhæð húsaleigu sama íbúðarhúsnæðis frá því sem fyrir var umfram 2,5%.“

Í rökstuðningi frumvarpsins segir að það sé algjört grundvallaratriði í öllum siðmenntuðum samfélögum að fólk hafi þak yfir höfuðið. Réttur til viðunandi lífskjara, þar á meðal húsnæðis og batnandi lífsskilyrða, séu grundvallarmannréttindi sem njóti verndar félagsmálasáttmála Evrópu, alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Þá segir að hér á landi hafi séreignastefna lengst af verið ríkjandi þar sem flestir geri sitt besta til þess að eignast eigið húsnæði. Hins vegar sé leigumarkaðurinn lítill og vanþróaður.

„Ástandið á húsnæðismarkaði er þungt um þessar mundir og einkennist öðru fremur af skorti á framboði húsnæðis. Verðbólga hefur náð hæðum sem hafa ekki sést síðan í kjölfar bankahrunsins árið 2008 og er búist við að hún geti orðið lengi að hjaðna. Það sama má segja um vaxtahækkanir til að bregðast við verðbólgunni, sem má búast við að leiði til hækkana á húsaleigu vegna hærri fjármagnskostnaðar. Með frumvarpi þessu eru því lagðar til nokkrar breytingar á húsaleigulögum í því skyni að koma böndum á hækkanir á húsaleigu og styrkja réttarstöðu leigjenda“ segir í rökstuðningi með frumvarpinu.“

Smelltu hér til þess að skoða frumvarpið

Deila