Fólk innan réttavörslukerfisins á ekki að þurfa að þola áreiti glæpamanna

Sú þróun sem hefur verið að eiga sér stað þegar kemur að erlendum glæpamönnum er ekki góð og það er hræðilegt að menn eins og vararíkissaksóknari þurfi að þola áreiti og hótanir árum saman og það hefði átt að stoppa það strax. Árásir á fangaverði eru óviðunandi. Þetta segir Gunnar Valur Jónsson fyrrverandi fangavörður en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu.

Segist sjálfur ávallt hafa mætt góðu viðmóti frá föngum

Gunnar segist aðspurður aldrei sjálfur, á sínum 40 ára ferli, hafa orðið fyrir slíku þegar hann starfaði innan fangelsanna. Hann hafi starfað lengst á Litla-Hrauni, síðan Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og Síðumúlafangelsi, jafnframt í Kvennafangelsinu. Hann segist aldrei hafa mætt neinu nema góðu viðmóti af hálfu þeirra fanga sem hann hafi umgengist og sömu sögu hafi hann að segja af ættingjum þeirra og vinum. Hann segist afar þakklátur fyrir það en hafi þó heyrt af því og vitað til þess að aðrir fangaverðir hafi lent í slíku og jafnvel að það hafi verið komið heim til þeirra.

Hættulegir glæpir kalla á viðbrögð strax með afgerandi hætti

Þá segir Gunnar Valur um þá breytingu sem orðið hefur á glæpum eins og fjölgun mála þar sem stunguvopnum hefur verið beitt vera mjög slæma þróun. Hann segir mjög mikilvægt að fólk sé vakandi fyrir þessari alvarlegu tegund glæpa og að grípa þurfi inn í strax með mjög afgerandi hætti.

Rólegast í fangelsunum þegar ekkert dóp er í húsinu

Aðspurður um hvernig hægt væri að lýsa einni vakt fangavarðar segir Gunnar Valur að vaktinar hafi verið mjög misjafnar. Vaktin gat til dæmis verið á þann veg að vera mjög róleg og allir í sinni vinnu og að sinna sínu og það hafi yfirleitt verið þannig ef ekkert hafi verið að í fangelsinu, ekkert dóp eða slíkt hafi allir verið að vinna. Síðan eftir vinnu hafi menn farið og lagt stund á íþróttir og á slíkri vakt sé allt í stakasta lagi. Þó gat komið fyrir að þetta væri svo alveg á þverveginn eins og gengur.

Starf fangavarða mjög ábyrgðarmikið

Hann segir starf fangavarða vera í raun mjög mikið ábyrgðarstarf og þeir þurfi að sinna ýmsu. Þei þurfi jafnvel að veita sálfræðilega aðstoð, gefa lyf þegar við á og ræða við fanganna þegar þeir hafi viljað ræða sín mál. Það að vera fangavörður sé að vera svolítið allt í öllu. Þá kom fyrir að fangaverðir þyrftu að vera yfir föngum á sjúkrahúsum ef upp komu þær aðstæður.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila