Forsætisráðherra fundaði með forsætisráðherra Andorra

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra átti í dag fund með Xavier Espot Zamora, forsætisráðherra Andorra, í Stjórnarráðshúsinu. Á fundinum ræddu ráðherrarnir tvíhliðasamskipti Íslands og Andorra og tækifæri til að efla samstarfið.

Á næsta ári verða liðin 30 ár frá því að stofnað var til stjórnmálasamstarfs ríkjanna en tvísköttunarsamningur var undirritaður í febrúar 2023. Einnig ræddu forsætisráðherrarnir Evrópumál en Andorra lauk nýlega viðræðum um samstarfssamning við ESB. Íslensk stjórnvöld hafa í því sambandi miðlað af reynslu sinni varðandi rekstur EES-samningsins.

Andorra er aðeins 468 ferkílómetrar að stærð en landið liggur milli Frakklands og Spánar í Pýreneafjöllum. Íbúafjöldi í Andorra er um 77 þúsund.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila