Site icon Útvarp Saga

Forseti sænska þingsins vonsvikinn með óreiðuna í stjórnmálunum: „Dregur úr trausti á þinginu og lýðræðinu“

Andreas Norlén forseti sænska þingsins t.v. gagnrýndi Umhverfisflokkinn t.h. fyrir að hafa ekki látið sig vita um ákvörðun þeirra að hoppa af ríkisstjórnarsamstarfinu ef fjárlög ríkisstjórnarinnar yrðu felld. Sagði talmaðurinn, að hann hefði þá beðið með að leggja til forsætisráðherraefni við þingið þar til eftir atkvæðagreiðsluna um fjárlögin. Margir telja að óreiðan á sænska þinginu leiði til þess að traust kjósenda á stjórnmálamönnum hafi laskast. (Samsett mynd/sksk fb, twitter).

Hefði haft röð atkvæðnagreiðslna öðru vísi ef hann hefði fengið réttar upplýsingar

Í fyrsta skipti í stjórnmálasögu Svíþjóðar gagnrýnir forseti þingsins einn einstakan stjórnmálaflokk, Umhverfisflokkinn. Andreas Norlén forseti sænska þingsins sagði á blaðamannafundi, eftir að Magdalena Andersson sagði af sér embætti forsætisráðherra, án þess að hafa verið sett formlega í embættið, að óreiðan á sænska þinginu kæmi niður á trausti á þinginu og lýðræðinu: „Ég held að fólk skilji ekki af hverju nýkjörinn forsætisráðherra segir af sér aðeins sjö tímum eftir að þingið samþykkti hana í embættið.“

Talmaðurinn lýsti vonbrigðum sýnum með að hafa ekki fengið upplýsingar um, að Umhverfisflokkurinn hyggðist rjúfa stjórnarsamstarfið, ef fjárlög ríkisstjórnarinnar féllu á þinginu. „Ég hefði þá ekki lagt til að þingið samþykkti Magdalenu Andersson sem forsætisráðherra fyrr en eftir atkvæðagreiðslu um fjárlögin, þegar í ljós kæmi hvort ríkisstjórnin héldi velli eða ekki.“

Ný atkvæðagreiðsla um Magdalenu Andersson á mánudag – gys gert að Svíþjóð víða um heim

Mikið gys er gert að Svíþjóð erlendis og spurning dagsins er: „Hver er forsætisráðherra í Svíþjóð?“

Talmaðurinn sagði ekki útilokað að tilnefna annan en Magdalenu Andersson sem forsætisráðherraefni en þar sem stjórnmálaflokkarnir lofa, að þeir muni greiða atkvæði um hana á ný með sömu atkvæðum og síðast, þá lagði hann hana fram í tilkynningu í gær, sem verður staðfest af þinginu í annarri umræðu í dag og síðan fer atkvæðagreiðsla að nýju á mánudag kl. 13.00 að sænskum tíma. Fari sú atkvæðagreiðsla fram eins og lofað er, þá mun þingið í annað sinn tilnefna Magdalenu Andersson sem fyrstu konu í embætti forsætisráðherra Svíþjóðar á mánudag 6 dögum eftir að þingið tilnefndi hana fyrst. Í þetta sinn sem forsætisráðherra fyrir minnihlutastjórn eins flokks, sósíaldemókrata.

En eins og áður hefur verið sagt, það þarf ekki nema einn þingmaður frá vinstri hliðinni að kjósa með þeirri hægri til að hún verði felld og talmaðurinn verður þá að halda áfram leitinni að næsta forsætisráðherraefni Svíþjóðar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla