Forvarnir eru gríðarlega mikilvægar til þess að sporna við vopnaburði barna og ungmenna og mikilvægt að hafa í huga að þegar einstaklingur er ekki með hníf undir höndum þá verður hníf ekki beitt. Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknardeild lögreglunnar en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu en hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
Grímur segir lögregluna hafa að undanförnu orðið vara við aukinn vopnaburð barna og ungmenna, sem þau segjast nota til varnar. Þetta hafi skapað aukna hættu á alvarlegum ofbeldisverkum, þar sem tilfinning um þörf fyrir sjálfsvörn geti fljótt leitt til þess að vopnin séu notuð í átökum. Grímur benti á að ef ungmenni bæru ekki vopn væri hættan á slíkum árásum minni.
Forvarnir byggja á því að allir taki höndum saman
Til að bregðast við þessari þróun leggur Grímur áherslu á að forvarnir séu lykillinn að lausninni. Það þarf að vinna saman á breiðum grundvelli þar sem samfélagið allt kemur að málum, heimili, skólarnir, félagsmiðstöðvarnar og fleiri.
Lögreglan ætlar að fjölga samfélagslögreglumönnum
Þá ætlar lögreglan að fjölga svokölluðum samfélagslögreglumönnum sem hafa það hlutverk að vera á meðal borgaranna úti í samfélaginu. Þeir geti til að mynda farið inn í skólana og rætt við börn og ungmenni og þannig stuðlað að því að þessi þróun sem orðið hefur í vopnaburði haldi ekki áfram. Þeir komi til með að fræða börn og ungmenni meðal annars um afleiðingar notkunar eggvopna. Einnig hefur verið lagt til að auka sýnileika lögreglu á götum úti, sérstaklega á þeim stöðum þar sem ungmenni safnast saman.
Refsingar við hnífaburði er ekki nægjanlegt úrræði
Grímur segir að þrátt fyrir að lögreglan geti gripið til refsingar við hnífaburði, er það ekki talið nægjanlegt eitt og sér til að uppræta vandann. Samfélagið þurfi að sameinast um að skapa umhverfi þar sem ungmenni finni ekki þörf hjá sér til þess að bera vopn.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan