
Með því að leggja áherslu á forvarnir til þess að bæta heilsu fólks og sér í lagi eldra fólks getur það sparað ríki og sveitarfélögum háar upphæðir auk þess sem það bætir vellíðan íbúa. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Janusar Friðriks Guðlaugssonar dotors í íþrótta og heilsufræðum í þættinum Unga fólkið en hann var gestur Más Gunnarssonar.
Janus hefur verið í forsvari fyrir Janusarverkefnið sem gengur út á innleiðingu á lýðheilsutengdu inngripi sem ætlað er eldra fólki á aldrinum 60 ára og eldri. Verkefnið miðar að því að hafa áhrif á heilsu þessa hóps og velferð með heilsutengdum forvörnum sem tengjast styrktar og þolþjálfun. Þessum hópi er boðið að taka þátt í verkefninu og getur fólk meðal annars aukið þol og heilsu með því að hjóla og dansa svo eitthvað sé nefnt. Síðan eru haldin heilsuerindi sem fylgja hverju þrepi sem eru fjögur en erindin snúa þar mest að næringu fólks.
„því ef þú vilt ná árangri í íþróttum eða hafa góð áhrif á heilsuna með hreyfingu þá þarf að huga vel að næringunni. Eldri borgara þurfa til dæmis að huga vel að næringunni samhliða æfingum sem er ætlað að efla þolið og þá er gott að næringin sé mjög próteinrík. Í því sambandi er mjög gott að borða til dæmis fisk, egg, kjöt og öðru slíku því það sem gerist með hækkandi aldri er að vöðvamassinn rýrnar og þar með dregur úr hreyfigetu og þoli“segir Janus.
Hann segir mikinn ávinning af því að efla heilsu fólks með þessum hætti og með þessu sé til dæmis hægt að draga úr sjúkrahúsinnlögnum og lengja þann tíma sem eldra fólk getur búið heima hjá sér og um leið sparað ríki og sveitarfélögum háar fjárhæðir.
Hlusta má nánar á fróðleik um bætta lýðheilsu í spilaranum hér að neðan