Framkvæmdir á vegum Votlendissjóðs reynast dauðagildrur fyrir búfé

Mokað ofan í skurð í landi Bessastaða en verndari Votlendissjóðs er Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands

Framkvæmdir á vegum Votlendissjóðs þar sem megin markmiðið er að grafa ofan í skurði til að endurheimta votlendi og að sögn sjóðsins að færa land til fyrra horfs hafa reynst dauðagildrur fyrir búfénað.

Meðal annars eru dæmi um að forarpyttir og litlar tjarnir sem myndast hafa þar sem mokað hefur verið ofan í skurði hafi reynst búfénaði lífshættulegar. Víðir Hólm Guðbjartsson bóndi í Grænuhlíð á Bíldudal birti í gærkvöld myndband á Fésbókarsíðu sinni þar sem hann bendir á þessa hættu. Í myndbandinu sem við vörum viðkvæma við að skoða má sjá hvað kind hefur lent í sjálfheldu í slíkri tjörn og drukknað.

Skiptar skoðanir eru á meðal bænda um framkvæmdir Votlendissjóðs og þó margir hverjir séu sáttir við að mokað sé í skurði við túnum og aðra ræktunarreiti sem hætt er að nýta efast margir um gagnsemina af því. Þá eru þeir margir sem telja að ef hætta standi af slíkum framkvæmdum fyrir búfé þá sé það álitamál hvort þær framkvæmdir standist lög um dýravelferð, enda reki bændur fé sitt á svæði sem þeir hafa hingað til talið vera örugg.

Samkvæmt heimildum undrast fjölmargir bændur að ekki hafi verið gert áhættumat á svæðum þar sem búfé gengur laust með tilliti til þeirrar hættu sem dýrum og jafnvel fólki stafar af tjörnum og forarpyttum vegna slíkra framkvæmda. Þá velta bændur því fyrir sér hver á að bera ábyrgð á því fjárhagslega tjóni þegar búfé ferst eftir að hafa lent í dauðagildrum Votlendissjóðs.

Á vefsíðu Votlendissjóðs má sjá hreyfimynd þar sem meðal annars sýndar eru framkvæmdir á vegum sjóðsins en þar má sjá skurði sem mokað hefur verið ofan í, en af myndunum að dæma virðist vera sem að mokað sé á nokkrum stöðum í hvern skurð og þannig myndaðar litlar tjarnir sem svo dreifa sér til hliðanna. Engar girðingar eru hins vegar reistar til þess að koma í veg fyrir að búfé komist að tjörnunum með tilheyrandi slysahættu.

Deila