Fréttir vikunnar: Efnahagsmálin, ný stefna Samfylkingar og stjórnarsamstarfið

Í þættinum Fréttum vikunnar var farið vítt um svið fréttamála þessarar viku og víðar. Gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í þættinum var Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur og óperusöngvari. Í þættinum voru meðal annars efnahagsmálin til umræðu enda voru líklega stærstu tíðindi vikunnar mjög umdeild vaxtahækkun Seðlabanka Íslands þrettánda skiptið í röð.

Guðbjörn segir að vaxtahækkunin hafi komið sér nokkuð á óvart, hann hafi átt von á hækkun frá hálfu til einu prósenti en 1,25% hækkun hafi komið á óvart sérstaklega í ljósi þess að verðbólgan hafi lækkað lítillega. Guðbjörn bendir á að Ísland sé að fást við öðruvísi verðbólgu en í Evrópu, hér sé til dæmis mikil þennsla, bæði gengur ferðaþjónustan vel sem og fiskeldið auk þess sem fiskiskipaflotinn hafi fiskað ágætlega. Á sama tíma skammar seðlabankastjóri landsmenn og segir þá spenna bogann of hátt og hefur nefnt í því sambandi utanlandsferðis landans. Guðbjörn segir að hann sé á þeirri skoðun að það sé ekki hægt að kenna eingöngu almenningi um verðbólguna.

„og mér fannst seðlabankastjóri einmitt koma inn á það síðast sem ég hef talað um í hálft ár að það sé þennsla líka í atvinnulífinu og það er of lítið talað um það og kannski er verið að byggja of hratt upp þar. Á sama tíma er ekki að verið að byggja upp íbúðarhúsnæði sem veldur ákveðnum vanda sem síðan veldur verðbólgu, þannig þetta er fyrst og fremst íbúðavandi og svo of hröð uppbygging atvinnuveganna“segir Guðbjörn.

Í þættinum var einnig rætt um Samfylkinguna og þeirri nýju vegferð sem hafin er þar með nýjum formanni, Kristrúnu Frostadóttur í brúnni. Guðbjörn segir að Kristrún beri af sér góðan þokka og hafi tekið þá stefnu að veðja á samlyndi frekar en sundurlyndið sem víða ríki í samfélaginu. Því hafi hún fylgt þeirri stefnu sinni eftir og tekið þá nýju stefnu inn í Samfylkinguna að tala fólkið saman í stað þess að setja það í grúppur eða hópa og því hætt að skipta fólki upp eftir kyni, kynhneigð, gamalt fólk, ungt fólk og svo framvegis. Nú tali Samfylkingin til fólksins sem eins hóps og segir Guðbjörn að hann telji að margir séu hrifnir af þeirri stefnu. Enda sé oftar en ekki staðan sú að stofnanir og hátt settir tali niður til fólks sem veldur því að þjóðin skiptist í margar fylkingar. Þá tali Kristrún ávallt af kurteisi til fólks hvort sem það sé henni sammála í pólitík eða andstæðingar hennar.

Guðbjörn bætir því við að Bjarni Bendiktsson hafi einnig alla tíð tamið sér kuretisi í garð fólks og það sé ekki af ástæðulausu að hann sé í samstarfi við Katrínu Jakobsdóttur í VG og Framsóknarflokknum því það fólk umgangist hvort annað af kurteisi og virðingu. Aðspurður um hvað Guðbirni finnist þá um hverni verið sé að hólfa fólk niður og segja því hvaða skoðanir það eigi að hafa, til dæmis með þingsályktunartillögu Katrínar gegn hatursorðræðu segir Guðbjörn

„þetta er ekkert annað en það sem við horfðum upp á í Sovétinu eða nasismanum, fasismanum, þetta er nákvæmlega sama aðferðarfræðin og líka í Bandaríkjunum þegar þeir sem voru vinstri sinnaðir í Hollywood var bannað úr kvikmyndaheiminum, þetta er nákvæmlega eins og það hefur alltaf verið, það eru einhver öfl sem ná undirtökunum og eru síðan að kúga aðra, um það snýst málið“segir Guðbjörn.

Hlusta má á þáttinn og nánari umræður um fréttir vikunnar í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila