Fréttir vikunnar: Forsetakosningar, utanríkisráðherra Íslands í Georgíu og skotárásin á Robert Fico í Slóvakíu

Í þættinum Fréttir vikunnar í dag fóru Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson yfir helstu fréttamál vikunnar.

Í byrjun þáttar var rætt um kosningabaráttuna í aðdraganda forsetakosninganna og sagði Arnþrúður að það hafi vakið athygli að í viðtali Arnþrúðar við Höllu Hrund Logadóttur forsetaframbjóðand í dag hafi Halla rætt um áhrif skoðanakannana en Halla sagði þar að áhrifin stöfuðu fyrst og fremst af því hvernig fréttamenn og álitsgjafar fjölluðu um kannanirnar. Pétur sagði það einnig athyglisvert að frambjóðendurnir gangi flestir út frá því að allir Íslendingar hefðu sömu gildi sem væri í raun alrangt. Það væri þannig að hagsmunir fólks sem og lífsviðhorf, trú og menning séu mjög mismunandi og því séu gildi hvers og eins ólík. Pétur benti á að samfélagið hafi breyst mjög mikið og gildin ólík eftir því.
Arnþrúður sagði breytinguna stafa meðal annars af því að hér hafi öllu í raun verið snúið á hvolf og verið sé að reyna að breyta bæði menningunni og trúnni í samfélaginu.

Verið að breyta fjölmiðlalögum í Georgíu

Í þættinum var einnig fjallað um þátttöku Þórdísar Kolbrúnar utanríkisráðherra í mótmælum í Georgíu en þau hafa vakið talsverða athygli og viðbrögð og þykir mörgum framganga ráðherra ekki samrýmast starfi hennar sem ráðherra. Mótmælin snerust um fjölmiðlalög sem sett hafa verið til þess að tempra áhrif erlendra valdaafla í Georgíu og því ljóst að Þórdís Kolbrún er mótfallin því að stjórnvöld í Georgíu verjist áhrifum erlendra afla. Forseti Georgíu Salome Zourabichvili er andvíg lögunum og er því í andstöðu við þingið svo staðan sem uppi er þykir nokkuð sérstök. Málinu hefur verið stillt þannig upp af fjölmiðlum að Rússar séu að þvinga þingið til þess að setja þessi lög sem sé alrangt. Fyrirmynd lagasetningarinnar megi rekja til Bandaríkjanna árið 1938. Ríkisstjórn Georgíu sé að reyna að stöðva sjálfvirkar mataðar falsfréttir frá vestrænum risa fréttaveitum.

Líka verið að breyta fjölmiðlalögum í Slóvakíu

Þá var rætt um skotárásina á Robert Fico forseta Slóvakíu sem nú liggur milli heims og helju á sjúkrahúsi og berst fyrir lífi sínu. Mikið hefur verið fjallað um málið og ábyrgð fjölmiðla á því að hafa málað Fico upp sem nokkurs konar illmenni og þannig gert hann að skotmarki. Tímasetning árásarinnar hefur einnig vakið athygli því hún er framin degi eftir að Fico hafnaði farsóttasáttmála WHO og þar með komið í veg fyrir að Slóvakía framseldi völd til WHO. Auk þess sem árásin var framin sama dag og hrinda átti í framkvæmd breytingu fjölmiðlalögum í landinu og loka Ríkisútvarpi Slóvakíu. Breytingarnar snúa meðal annars að því að leggja Ríkisútvarp Slóvakíu niður í núverandi mynd, setja það á fjárlög og koma því undir stjórn þingsins svo erlendra áhrifa gætti ekki í fréttaflutningi þess.

Hlusta má á þessar og fleiri fréttir vikunnar í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila