Fréttir vikunnar: Hryðjuverkum afstýrt, Nútímafólkið á þingi og hættuástandið á landamærunum

Í fréttum vikunnar voru málefni lögreglunnar og fjölbreytt verkefni hennar eðli málsins samkvæmt fyrirferðamikil enda var ein stærsta frétt vikunnar um aðgerðir lögreglu sem afstýrðu yfirvofandi hryðjuverkaárás en gestir Arnþrúðar Karlsdóttur í þættinum voru þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og Brynjar Níelsson aðstoðarmaður dómsmálaráðherra.

Sigmundur segir fréttirnar af aðgerðum lögreglu sem afstýrðu hryðjuverkaárás sláandi, enn eigi þó eftir að varpa nánara ljósi á málið til þess að átta sig á alvarleika þess en þetta sé þó ekki eitthvað sem ætti að koma á óvart því skýrslur ríkislögreglustjóra hafa ítrekað undanfarið á bent á þá hættu sem stafaði meðal annars af skipulagðri glæpastarfsemi og uppgangs erlendra glæpahópa hér á landi.

„ég furðaði mig á að þessar skýrslur fengu afskaplega litla umfjöllun í þinginu sem var fullt tilefni til að ræða því þessar skýrslur eru alveg mögnuð plögg sem lýsa mjög afdráttarlaust raunverulegri hættu og ástandi sem er gjörólíkt því sem við höfum vanist hér á Íslandi og við því þarf að bregðast, sem ekki hefur verið gert hingað til og vonandi verður núna breyting þar á“ segir Sigmundur.

Lagaumhverfið hamlar samvinnu við erlend lögregluyfirvöld

Brynjar segir lagaumhverfið á Íslandi vera lögregluyfirvöldum oft til trafala þegar kemur að samvinnu við erlend lögregluyfirvöld.

„það er auðvitað þannig að við fáum oft upplýsingar frá útlöndum um ákveðin mál og þá segja erlendu yfirvöldin að upplýsingarnar þurfi að fara leynt, ekki megi afhenda þær sakborningum og svo framvegis en við erum hins vegar með löggjöf sem hentar þessu mjög illa, stærsti vandinn er að við hlustum ekki á aðvaranir, erum sofandi á verðinum og erum svolítið að láta hlutina keyra inn í hliðina á okkur en það þarf auðvitað að bregðast við því“

Ekki hægt að tala saman fyrir upphrópunum

Brynjar segir að til þess að bregðast við slíkum aðvörunum þurfi fólk að tala saman, ekki síst á þinginu en þá komi babb í bátinn.

„það hefur bara ekki verið hægt að ræða svona hluti því þá koma upphrópanir um að þetta sé þá öfgahægristefna, lögregluríki eins og hægri menn vilji eitthvað lögregluríki, og þessi umræða fer bara í einn graut og þá bara stoppar umræðan, svo hafa fjölmiðlar engan áhuga á þessu og svo er almenningur hafi heldur ekki áhuga á þessu fyrr en þetta fer að snerta fólk beint, en við sem berum ábyrð í þessu ráðuneyti og berum ábyrgð á öryggi borgaranna getum ekki bara horft á og vonað það besta, við verðum að bregðast við og við erum að því núna“ segir Brynjar.

Öllu snúið upp í pólitík

Aðspurður um hvað Brynjari fyndist um að fræðasamfélagið héldi því fram að hryðjuverkamálið tengdist hægri öfgum segir Brynjar.

„það er alltaf verið að snúa þessu upp í einhverja pólitík og á þessu stigi er það bara algerlega fráleitt, venjulega er það bara þannig eins og hefur gerst úti í heimi þegar einhverjir ungir menn eru að safna vopnum og nota þau svona og eru með hatur á einhverju þá fara menn að nota þetta pólitískt en ég segi leyfum bara lögreglunni að rannsaka þetta og við sjáum þá hvað þetta er, það er búið að vara okkur við að þetta gæti gerst og við verðum að vera vakandi og sem betur fer var lögreglan bara þokkalega vakandi, það er ekkert víst að það hefði endilega verið þannig, svo vitum við svo sem ekkert hvað menn ætluðu sér og hvort þetta var raunveruleg ógn en það er nú þannig að ef menn eiga tugi skotvopna og þúsundir skota þá er líklegt að þeir ætli sér einhvern tíma að nota það“segir Brynjar.

Sigmundur tekur undir með Brynjari og segir best sé að bíða eftir niðurstöðum rannsóknar lögreglu áður en menn hlaupi í skotgrafir.

„það verður að gæta þess að oftúlka ekkert í þessum efnum enda margt óljóst varðandi þetta mál en engu að síður er full ástæða til þess að hrósa lögreglunni fyrir að hafa gripið þarna inn í því eins og Brynjar segir að þá var það ekkert gefið að lögreglan hefði haft burði eða yfirsýn til þess að bregðast við“ segir Sigmundur.

Hann segir mikilvægt að fara í þá vinnu að ákveða hvernig menn ætli að haga öryggismálum hér á landi í framtíðinni.

„þetta er áminning um það sem búið er að vera að ræða í all mörg ár hér á Íslandi þ,e aukin umsvif skipulagðra glæpahópa hér á landi“

Nútímamenn ekki barnanna bestir

Brynjar segir að ákveðinn hópur fólks sem aðhyllist að stimpla fólk með hægri öfgastimplum og aðhyllist útilokunarmenninguna skilgreini sig oft við nútímann og nútímamanninn en átti sig ekki á að hegðun þeirra sé í eðli sínu fasísk.

„þetta kalla menn nútímalegt og segja við mig að koma í tuttugustu og fyrstu öldina, þetta er vond þróun í samfélaginu að mínu viti, hún er hættuleg lýðræðinu og réttarríkinu og í mínum huga er þetta ógn við hið gamla góða vestræna lýðræði“ segir Brynjar.

Sigmundur segir þetta vera einmitt uppskrift sem öfgahópar vinni eftir, þeir telji sig vera berjast fyrir einhvers konar réttlæti og skeyti engu um lög og reglur.

„þetta er uppskriftin af öfgum, að málstaðurinn sem þetta fólk berst fyrir sé svo góður að allar hefðbundnar reglur eigi að víkja svo þú náir þínu fram“

Hættuástandið á landamærunum afleiðing af stefnu stjórnvalda

Sigmundur segir það ástand sem ríkislögreglustjóri hefur greint sem hættuástand á landamærunum vegna þess mikla fjölda sem hingað leita í leit sinni að betra lífi vera beina afleiðingu af þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa í málefnum útlendinga.

„við höfum bent á þetta í all mörg ár, bæði ég, Brynjar og fleiri en alltaf hafa stjórnvöld tekið stefnu í þveröfuga átt og sett lög sem auglýsa Íslands sem góðan áfangastað til dæmis fyrir þau glæpasamtök sem við sjáum að smygla fólki, nú er spurningin hvort ríkisstjórnin muni bregðast við, ég á eftir að sjá það gerast, þetta er ástand sem er ómögulegt á allan hátt. Ef við viljum hjálpa sem flestum sem þurfa á hjálp að halda þá er núverandi fyrirkomulag aldeilis ekki til þess fallið“ segir Sigmundur.

Hælisleitendakerfið er ónýtt

Brynjar bendir á að þegar þverpólitíska útlendingafrumvarpið hafi verið afgreitt 2016 hafi hann varað við því pandóruboxi sem verið væri að opna með samþykkt þess en þá hafi verið hlegið að honum.

„þetta hælisleitendakerfi er misnotað og það er ónýtt, við erum búin að auglýsa þetta þannig nánast um allan heim að hér sé best að vera það er bara staðreynd og við erum með allt annað kerfi heldur en önnur lönd og það er bara þannig að við erum hlutfallslega komin með tífallt eða tuttugufalt fleiri heldur en nágrannalöndin“segir Brynjar.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila