
Í þættinum Fréttir vikunnar í dag fóru Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson yfir þær fréttir sem hæst báru í vikunni og bar þar margt á góma. Hér innanlands voru jarðhræringarnar í Grindavík, eðli málsins samkvæmt, stærsti viðburðurinn innanlands í þessari viku og svo að sjálfsögðu hvernig þeir atburðir flettu ofan af þeirri staðreynd hvernig farið sé með neyðarsjóði landsmanna.
Í þættinum var fyrst fjallað um jarðhræringarnar en þar kom fram að nýjustu fréttirnar væru þær að upphafið að þeim atburðum sem nú eru að eiga sér stað í Grindavík sé vegna flekaskila sem eru á þessu jarðsvæði samkvæmt því sem Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur og fleiri sérfræðingar telja.
Fram kom að sú verðmætabjörgun sem nú fari fram í Grindavík sé afar mikilvæg en eðli málsins samkvæmt fylgi því alveg gríðarleg áhætta þar sem ekki sé vitað með vissu hvort, hvenær og á hvar gos geti komið upp auk þess sem það séu miklar skemmdir íbúðarhúsnæði og mannvirkjum sem geti valdið einar og sér talsverðri hættu. Öryggið sé þó haft alltaf í fyrirrúmi og allt gert til þess að takmarka hættuna.
Mikið inngrip í líf fólks
Fram kom að rýming Grindavíkurbæjar sé mjög mikið inngrip í líf fólks, óvissa sé mjög mikil og nú séu íbúar í Grindavík margir hverjir að leita sér að húsnæði á leigu en vita því miður ekki hversu lengi ástandið varir og því viti það ekki hvort það sé að leita að samastað til lengri tíma. Ástandið á leigumarkaði hjálpar ekki til hvað þetta varðar. Þá veldur ástandið miklu raski hvað varðar skólagöngu barna.
Pétur benti á að núna hafi þessir atburðir leitt í ljós hversu varasamt það sé fyrir ríki og sveitarfélög að vera mjög skuldsett því nú þurfi mjög á fjármagni að halda til þess að taka vel utan um alla þá þræði sem halda þarf um í svona ástandi. Nú sé búið að leggja á skatt á húsnæðiseigendur til þess að mæta þeim miklu útgjöldum sem hamfarir sem þessar valda.
Arnþrúður segir að skattalagningin hafi verið sett fram á þann hátt að þetta hafi verið gert til þess að hjálpa Grindvíkingum en staðreyndin sé sú að þetta sé ekki síst gert til þess að bjarga innviðum, til dæmis Virkjuninni í Svartsengi og Bláa lóninu með því að setja upp varnargarða. Þar sé verið að reyna að koma í veg fyrir að rafmagn fari af sem og heitt og kalt vatn, mikið sé í húfi fyrir öll Suðurnesin.
Þarf að koma í veg fyrir innheimtuaðgerðir
Fram kom í þættinum að mikillar óánægju gæti meðal fólks með bankana því þeir segja að nú sé fyrirséð að fólk þurfi að greiða af lánum fyrir stórskemmd hús. Frysta þurfi lánin eins og staðan sé núna og koma í veg fyrir innheimtuaðgerðir. Setja þurfi hreinilega lög þess efnis ef ekki vill betur til. Bendir Arnþrúður á að það gefi augaleið að fólk geti ekki greitt af húsunum því þetta sé mikil röskum og breyting á stöðu og högum fólks. Mikilvægast nú sé að finna húsnæði fyrir fólkið svo það komist í gott skjól.
Sjóðasukkið
Arnþrúður sagði í þættinum að það hafi vakið athygli þegar umræður fóru fram á þinginu þegar verið var að flytja frumvarpið um skattlagninguna á fasteignaeigendur vegna náttúruhamfaranna að Eyjólfur Ármannsson hafi bent á að til væri sjóður sem ætti að nota til slíkra útgjalda, . Um er að ræða almennan varasjóð þar sem tilgreint er meðal annars að nýta eigi þegar náttúruhamfarir sem þessi komi upp. Hins vegar sé það svo að búið sé að sólunda nánast öllu fé úr sjóðnum til óskyldra mála, meðal annars til launahækkana, málefna hælisleitenda og til þess að greiða kostnað vegna fundar Evrópuráðsins sem fram fór í Hörpu í sumar. Arnþrúður bendir á að ef horft sé til dæmis á þær launahækkanir sem talað er um í þessu sambandi sé sérkennilegt að skilgreina þær sem neyðartilvik, hvað þá Hörpu fundinn þar sem 80 Audi bílar hafi verið keyptir fyrir erlenda gesti.
Erfið staða í Úkraínu
Í þættinum var einnig fjallað um stöðuna í Úkraínu en þar er uppi pattstaða milli Rússa og Úkraínumanna sem skipast þar á skotum og nú hefur harðnað heldur betur á dalnum hjá Úkraínumönnum sem fá ekki lengur fé og skotfæri frá Bandaríkjunum en í fyrrinótt voru samþykkt bráðabirgðafjárlög á Bandaríkjaþingi en þar var enginn fjárveiting til Úkraínu í frumvarpinu. Arnþrúður segir að það sem standi núna upp úr í Úkraínustríðinu er andstaða Pólverja, Ungverja, Slóvakíu gagnvart Úkraínu en ríkin hafa neitað stuðningi við Úkraínu og nú sé talað um að Úkraínu verði skipt upp í að minnsta kosti tvo hluta og líklegt sé að Pólverjar taki yfir vesturhluta Úkraínu.
Vopn fundust bak við lækningartæki á stærsta spítala Palestínu
Ástandið á GAZA var einnig rætt í þættinum og þær fullyrðingar Ísraela að Hamas liðar hefðust við undir stærsta spítala Palestínu sem þeir hefðu tengt við umfangsmikið neðanjarðargangna kerfi sitt. Pétur segir að hann hefði séð það í fréttum að þar hefði mátt sjá hermann Ísraela finna skotfæri á bak við lækningartæki á spíatalanum sem um ræðir. Hins vegar sé ekki ennþá búið að sýna fram á að Hamas liðar hafist við undir spítalanum. Arnþrúður segir að Ísraelar viti alveg örugglega hvar höfuðstöðvar Hamas séu enda hljóti þeir að vera búnir að ná mönnum frá Hamas sem búi yfir slíkum upplýsingum. Ljóst sé að mikill fjöldi saklausa borgara hafa fallið í Palestínu eftir að átökin hófust eftir hryðjuverk Hamas á Ísrael. Arnþrúður segir ábyrgðina liggja hjá Hamas sem hafi rofið vopnahlé með árás sinni og með því sé Hamas að setja saklaust fólk í þá hættu sem það sé í núna.
Hlusta má á ítarlegri greiningu á fréttum vikunnar í spilaranum hér að neðan