Fréttir vikunnar: Leiðtogafundurinn, Hvalveiðarnar og Úkraínustríðið

Fréttavikan sem nú er að líða er óvenjustór á íslenskan mælikvarða vegna fundar Evrópuráðsins sem fram fór í Hörpu í vikunni. Í þættinum Fréttir vikunnar fóru Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson yfir það helsta sem var í fréttum þessarar viku en þar bar leiðtogafundinn að sjálfsögðu hæst.

Umgjörð leiðtogafundarins var vel heppnuð bæði hvað varðar uppsetningu, skipulag og löggæslu sem var bæði framkvæmd af íslensku lögreglunni og dönsku lögreglunni. Arnþrúður segir að það hafi verið eftirtektarvert hversu vel til tókst í allri umgjörðinni og þá hafi það starfsfólk sem kom að fundinum verið allt af vilja gert til þess að láta gestum fundarins líða sem best. Þá hafi Katrín Jakobsdóttir flutt framúrskarandi ræðu og Íslendingar gætu verið stoltir af því hvernig til tókst.

Sunak yfirgaf fundinn og hafði ekki erindi sem erfiði

Það voru þó ekki allir sáttir með innihald fundarins og einn þeirra tignu gesta sem kom í Hörpuna Rishi Sunak staldraði aðeins við í um þrjá klukkutíma og fór af landi brott þegar ljóst var að hann fengi dræmar undirtektir við þeim hugmyndum að ræða flóttamannavandann í Bretlandi og skipulag innflytjendamála. Arnþrúður bendir á að Sunak hefði líklega talið þetta heppilegan vettvang til þess að taka þessi mál fyrir af því Evrópuráðið sé sá vettvangur sem hefur með afgerandi hætti möguleika á að móta stefnu í málefnum flóttamanna. Sunak hafi hins vegar ekki orðið kápan úr því klæðinu að fá umræður um þessi mál tekin upp á fundinum og hafi því yfirgefið fundinn að öllum líkindum ósáttur við lyktir málsins.

Það sem stóð þó uppúr á fundinum hvað Ísland varðar voru meintar undanþágur Íslands undan kolefnisgjöldum vegna flugs sem Katrín Jakobsdóttir kynnti með eftirminnilegum hætti eftir fund hennar með Ursulu Von Der Leyen. Gleðin var þó stutt því þegar betur var að gáð er aðeins um greiðslufrest í um tvö ár að ræða og til þess að bæta gráu ofan á svart þá er samt sem áður full greiðsluskylda í gildi. Hefðbundið kerfi tekur svo við eftir tveggja ára aðlögunartímann og greiðir þá Ísland fullt gjald líkt og aðrar þjóðir. Smelltu hér til þess að lesa ítarlegri frétt um málið.

Ísland ekki öfgaþjóð

Niðurstaða fundarins hefur vakið nokkra undrun, sér í lagi sú samþykkt að Evrópuráðið stofni nokkurs konar stríðsdómstól. Arnþrúður bendir á að það sé ekki hlutverk Evrópuráðsins að stofna slíkan dómstól. Arnþrúður segir að þetta sé dæmi um þær öfgar sem menn þurfi að gæta sín á og mikilvægt að Ísland gæti að því að vera að minnsta kosti ekki í fremstu röð sem einhver öfgaþjóð þar sem refsigleðin sé allsráðandi, það sé einfaldlega ekki íslenska þjóðin. Þá sé tjónaskráin fræga af sama meiði og bendir Arnþrúður á að Hilmar Þór Hilmarsson prófessor hafi sagt í þætti á Útvarpi Sögu að stofnanir eins og Evrópuráðið hafi tilhneigingu til þess að búa sér til nýtt hlutverk. Evrópuráðið hafi nóg á sinni könnu sem vagga mannréttindamála, lýðræðissjónarmiða og réttaríkis. Arnþrúður segir að þeir þrír póstar sem réttaríkið inniheldur sé veigamikið atriði og sé alveg nó þó ekki bætist við að settur verði upp stríðsdómstóll á vegum Evrópuráðsins.

Almannahagsmunir að hægt sé að veiða hval

Hvalveiðarnar voru einnig til umræðu í þættinum og segir Arnþrúður það vekja athygli að umræðan um hvalveiðarnar virðst snúast helst um fyrirtækið Hval hf en ekki veiðarnar sjálfar. Arnþrúður segir ljóst að starfshópur sem fer yfir málið muni að sjálfsöðu koma með niðurstöðu í formi skýrslu sem endurspegli fyrst og fremst vilja Svandísar Svavarsdóttur sem vilji stöðva hvalveiðar. Málið sé hins vegar ekki svo einfalt því stjórnarskráin kveður á á um atvinnufrelsi og til þess að mega takmarka atvinnufrelsi þarf að sýna fram á veiðarnar séu skaðlegar einhverjum, t,d skaðlegar þjóðinni. Það séu hins vegar almannahagsmunir að hægt sé að veiða hval.

Biden hellir olíu á stríðsbálið

Ljóst er að andstaða gagnvart stríðinu fer vaxandi bæði hérlendis og erlendis meðal almennra borgara en leiðtogar eins og Joe Biden forseti Bandaríkjanna virðast gera sér far um að hella olíu á eldinn nú síðast með að leggja blessun sína yfir að sendar verði F-16 herþotur til Úkraínu. Það sé því ljóst að stríðinu mun ekki ljúka í bráð.

Hlusta má á ítarlegri umræðu um fréttir vikunnar í þættinum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila