Í þættinum Fréttir vikunnar í dag ræddu Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson um þær helstu fréttir sem hafa staðið uppúr í vikunni. Þar hefur Covid reyndar spilað stórt hlutverk þar sem nýr faraldur er sagður vera kominn af stað á Landspítalanum og svo bárust fregnir af því í gær að Joe Biden Bandaríkjaforseti, sem er margbólusettur, sé kominn með Covid.
Biden er því þessa dagana á heimili sínu í Delaware en sé þó í vinnu samt sem áður. Arnþrúður benti hlustendum á að hugsa málið og velta fyrir sér hvers vegna Biden sé allt í einu kominn með Covid. Biden sagði ítrekað á árinu 2021 að bólusetning með mRNA efni gæti tryggt að fólk smitaðist ekki af Covid.
Líka sagt við fólk á Íslandi
Arnþrúður spyr í því sambandi hvort þetta sé í samræmi við það sem almenningi var talin trú um fyrstu tvö árin þegar verið var að bólusetja fólk og því sagt að bóluefnið ætti að koma í veg fyrir smit. Svona hafi því miður verið miskunnarlaust logið að fólki og því sagt að það þyrfti að fara í enn eina sprautuna til þess að verða fullbólusett.
Biden að leita að útgönguleið
Pétur veltir því fyrir sér hvort Biden hafi verið að leita að útgönguleið eftir að hafa sætt mikilli gagnrýni með frammistöðu sína í kappræðunum á móti Trump. Arnþrúður sagði að Biden sjálfur væri ekki að leita að útgönguleið heldur væru það frekar baklandið og hjálparhellurnar sem séu að reyna að koma honum frá.
Pétur benti á að líkurnar á að Biden nái endurkjöri séu ekki miklar því 70% Bandaríkjamanna vilja hann ekki sem forseta og demókratar megi ekki til þess hugsa að tapa kosningunum.
Nancy Pelosi: Biden vinnur aldrei Trump
Arnþrúður sagði að fregnir hefðu borist af því í nótt að Nancy Pelosi hefði sagt Biden að hann yrði að gera sér grein fyrir því að hann myndi aldrei vinna Trump og það alvarlegasta væri að demókratar gætu tapað í báðum deildum þingsins og því mikið í húfi fyrir demókrataflokkinn.
JD.Vance varaformannsefni Trump
Þá var í þættinum fjallað um James David Vance varaforsetaefni Donald Trump og fram kom í þættinum að þar sem hann væri andvígur stefnu, Bandaríkjastjórnar í málefnum Úkraínu megi búast við að hætt verði að senda vopn þangað í stórum stíl. Sér í lagi vegna þess að Donald Trump er einnig andvígur átökunum.
Heyra má ítarlegri umfjöllun um Joe Biden, Trump og stríðið í Úkraínu í spilaranum hér að neðan