Blaðamennirnir Fríða Björnsdóttir og Guðrún Guðlaugsdóttir sem eiga áratuga langan feril í blaðamennsku voru gestir Arnþrúðar Karlsdóttur í síðdegisútvarpinu. Fríða er með blaðamannaskírteini númer 1 og ásamt blaðamennsku var hún framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands um 20 ára skeið. Guðrún hefur langa reynslu af fréttamennsku og dagskrárgerð á RÚV ásamt blaðamennsku á Morgunblaðinu og að auki skrifað bækur. Þær fjölluðu um blaðamannastarfið og áskorandir sem fylgja starfinu.
Fríða Björnsdóttir með blaðamannaskírteini númer 1
Fríða Björnsdóttir sem er með blaðamannaskírteini númer eitt ákvað að hefja nám í blaðamennsku árið 1961 og fór í háskóla í Bandaríkjunum í eitt ár þar sem hún stundaði nám í blaðamennsku. Síðan hóf hún feril sinn sem sumarstarfsmaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins og vann þar til hún hóf störf á tímaritinu „Tíminn.“ eins og það hét þá. Hún lýsti fyrstu dögum sínum í blaðamennsku sem krefjandi, en segir að með stuðningi frá reyndum fréttamönnum eins og Stefáni Jónssyni, Þórólfi Smára, Hendriki Ottóssyni og Högna Torfasyni og með þeirra góðu aðstoð hafi hún fljótt náð að fóta sig í starfinu. Hún ræddi einnig um erfiðleika sem hún mætti í byrjun, sérstaklega tengda því að tala í útvarpi, þar sem hún fann fyrir kvíða við að tala í hljóðnema.
Guðrún lærður leikari en festist í blaðamennsku
Guðrún Guðlaugsdóttir byrjaði í leiklist, en fór síðan að útvarpsþáttagerð hjá RÚV og síðar að blaðamennsku hjá Morgunblaðinu. Hún vann við fjölbreytt verkefni innan Ríkisútvarpsins og lýsti því hvernig hún smám saman þróaðist frá leiklist til fjölmiðla. Eftir að hafa tekið þátt í útvarpsþáttagerð fann hún ánægju í því að vinna við dagskrárgerð og síðar sem fréttamaður. Hún vann meðal annars við fréttaskrif á Morgunblaðinu, þar sem hún fékk tækifæri til að vinna heima til að sinna börnum sínum, sem var óvenjulegt á þeim tíma.
Blaðamennska breyttist með komu tölvunnar
Í viðtalinu veltu þær fyrir sér breytingum sem hafa átt sér stað í blaðamennsku. Guðrún talaði um hvernig þróun tækninnar, sérstaklega tilkoma tölva og samfélagsmiðla, hefur gjörbreytt blaðamennsku, en Fríða benti á að á sínum tíma hefði verið mikil áhersla á persónulega tengslamyndun og traust á milli blaðamanns og viðmælanda. Nú væri þetta mun auðveldara þar sem upplýsingar um margvísleg málefni og fólk sé hægt að nálgast á netinu og ná í góðar heimildir.
Traust er lykilatriði í blaðamennsku
Þær lögðu báðar áherslu á mikilvægi þess að geta unnið af heilindum og með virðingu fyrir viðmælendum sama hvað um ræðir. Þær segja mannleg samskipti og traust hafa verið lykilatriði í þeirra störfum. Báðar voru þær sammála um að blaðamennska væri starf sem býður upp á mikla fjölbreytni og skemmtileg verkefni, en líka að starf blaðamanns er aldrei í fríi – það væri nefnilega alltaf eitthvað að frétta.
Mæla með blaðamennsku fyrir ungt fólk
Þá voru þær báðar sammála því að þær myndu mæla með blaðamennsku fyrir ungt fólk í dag, sérstaklega í ljósi þess hversu mikilvægt er að skilja fjölmiðlaumhverfið og tileinka sér hæfni til að fjalla um margvísleg málefni í gegnum nútímatækni. Fréttir og fréttaumfjöllun verður að hafa sinn fjölbreytileika.
Hlusta má á ítarlegri umræður í spilaranum hér að neðan