Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Breytingarnar varða m.a. tilnefningu fulltrúa ráðuneyta í svæðisráð og skýrari ákvæði um skipunartíma svæðisráða og hlutverk Skipulagsstofnunar. Tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar er til og með 11. október 2024.
Lög um skipulag haf- og strandsvæða kveða annars vegar á um að mótuð skuli stefna um skipulag haf- og strandsvæða sem verði hluti landsskipulagsstefnu og hins vegar að gert skuli strandsvæðisskipulag fyrir afmörkuð strandsvæði eftir því sem tilgreint er í stefnu um skipulag haf- og strandsvæða hverju sinni.
Sjónum beint að skipulagi hafsvæða í heildarendurskoðun
Innviðaráðuneytið vinnur nú að undirbúningi heildarendurskoðunar á lögum um skipulag haf- og strandsvæða m.a. í ljósi þeirrar reynslu sem þegar hefur fengist af framkvæmd laganna. Einnig verður það gert í þeim tilgangi að meta hvernig staðið skuli að undirbúningi, gerð og framkvæmd skipulags hafsvæða utan strandsvæða.
Í tilkynningu segir að áður en niðurstöður slíkrar vinnu liggja fyrir sé nauðsynlegt að gerðar verðir tilteknar lágmarksbreytingar á lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Það er tilgangurinn með drögum að nýju frumvarpi um breytingar á lögunum.
Frumvarpið er að stórum hluta efnislega samhljóða frumvarpi sem kynnt var í samráðsgátt stjórnvalda í október 2023. Í umsögnum frá þeim tíma, m.a. frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, var helst gagnrýnt að frumvarpið fæli ekki í sér víðtækari endurskoðun á lögunum en raun bar vitni. Með heildarendurskoðun laganna sem nú stendur fyrir dyrum og sem vinna á í góðu samráði við helstu hagsmunaaðila er komið til móts við þessi sjónarmið.