Fyrirgefningin er máttug

Fyrirgefningin er máttugt verkfæri fyrir fólk sem á sára og erfiða reynslu að baki. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hrafnhildar Sigurðardóttur sálgætis í þættinum Í leit að sannleikanum í dag en hún var gestur Arnars Þórs Jónssonar.

Hrafnhildur segir fyrirgefninguna mikilvæga vegna þess að aðeins þannig sé hægt að leggja að baki erfiða reynslu sem hver og einn hefur þurft að bera með sér um langa hríð, jafnvel allt frá barnæsku. Í fyrirgefningunni felist ekki syndaaflausn fyrir gerandann, heldur sé fyrirgefningin fyrst og fremst fyrir þann sem var brotið gegn svo hann geti haldið áfram með líf sitt og farið að byggja upp sjálfan sig. Með því að fyrirgefa ekki haldi atburðurinn áfram að valda myrkri í sálinni og naga viðkomandi að innan, líkt og verið sé að taka inn eitur á hverjum degi með von um að það hafi áhrif á gerandann.

Hrafnhildur minnir á að hver og ein manneskja geymi bæði gott og illt. Það sé undir hverjum og einum komið hvort verði meira ráðandi. Næra þurfi hið góða svo það hafi alltaf yfirhöndina, en reyta upp hið illa líkt og arfa sem við viljum ekki hafa í garðinum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila