Unnið er nú að frumvarpi um breytingar á sakamálalöggjöfinni og refsirétti, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar landsins. Þessar breytingar eru að mati stjórnvalda nauðsynlegar til að uppfylla kröfur sem stafa af þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, sérstaklega í tengslum við FATF (Financial Action Task Force) og tölvubrotasamning Evrópuráðsins.
Hlutverk héraðssaksóknara skilgreint betur
Í ljósi tilmæla frá FATF verður hlutverk héraðssaksóknara við endurheimt ávinnings á landsvísu skilgreint betur. Breytingarnar miða að því að skerpa á ábyrgð og hlutverki héraðssaksóknara.
Styrkja úrræði lögreglu til rannsókna á fjármálabrotum
Áformað er að styrkja stöðu lögreglu við öflun fjármálaupplýsinga til að efla rannsóknarhæfni hennar í sakamálum. Fjármálafyrirtæki munu þurfa að veita lögreglu upplýsingar eða gögn, jafnvel þótt þau séu undir þagnarskyldu.
Breytingar á haldlagningu og kyrrsetningu eigna
Í tengslum við haldlagningu eigna er til skoðunar að bæta við nýjum ákvæðum um leitar- og haldheimildir í rafrænum gögnum, auk þess að rýmka inntak 68. gr. sakamálalaga. Með þessum breytingum verður lögreglu heimilt að leggja hald á muni til að tryggja greiðslu sektar og sakarkostnaðar. Jafnframt verður endurskoðun á ákvæði 88. gr. laga um kyrrsetningu, sem mun styrkja réttarstöðu ríkisins við slíkar aðgerðir.
Endurskoðun á almennum hegningarlögum
Að lokum eru fyrirhugaðar breytingar á almennum hegningarlögum. Þessar breytingar snúa að upptöku eigna sem aflað hefur verið með refsiverðum hætti og að brotum gegn tölvukerfum, í takt við kröfur tölvubrotasamnings Evrópuráðsins.
Lesa má nánar um málið hér í samráðsgátt