Fyrrverandi borgarstjóri: Umferðarkerfi borgarinnar versnar og versnar

Umferðarkerfi Reykjavíkur versnar og versnar ár frá ári og borgaryfirvöld gera ekkert til þess að grípa inn í og vandinn í umferðinni heldur bara áfram að versna. Þetta segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fyrrverandi borgarstjóri en hann var gestur í þætti Arnþúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar.

Vilhjálmur segir að þegar hann hafi einmitt verið á leið í viðtalið á Útvarp Sögu hafi hann þurft að keyra frá Seljahverfinu í Breiðholti niður í Skipholt og ferðin hafi tekið um 50 mínútur, ferð sem ætti að taka um 15 mínútur. Hann segir ástandið oft hafa verið slæmt en nú hafi steininn hreinlega tekið úr og ástandið hafi aldrei verið eins slæmt og það er nú.

Borgaryfirvöld aðhafast ekkert

Hann segir að undanfarin tíu ár hafi borgaryfirvöld akkúrat ekkert gert til þess að takast á við aukinn umferðarþunga sem vaxið hefur ár frá ári heldur þvert á móti notað hvert tækifæri til þess að gera ökumönnum frekar erfiðara fyrir með ýmis konar kúnstum meðal annars með því að grafa upp götur og þrengja götur.

Það þarf nýja borgarstjórn sem hefur áhuga á verkefninu

Aðspurður um hvað sé hægt að gera til þess að bæta úr vandanum segir Vilhjálmur að það vanti nýja borgarstjórn, fólk sem hafi raunverulegan áhuga á því að lagfæra það sem þarf að lagfæra og gera þær nauðsynlegu breytingar sem gera þurfi. Vilhjálmur segir ekki mikil merki þess að borgin ætli sér að taka á þessum málum og fyrirsjáanlegt að ástandið eigi eftir að versna enn frekar.

Hlusta má á ítarlegri umræður um samgöngumálin í borginni í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila