Fangaverðir þurfa eðli málsins samkvæmt að vera á vakt allan sólarhringinn og þá skiptir engu hvort það sé á jólum, áramótum eða öðrum dögum. Þeir þurfa alltaf að vera til taks og viðbúnir öllu sem komið getur uppá. Þetta fékk Gunnar Valur Jónsson fyrrverandi fangavörður að reyna á eigin skinni þegar hann var fangavörður á Litla hrauni og tók þar sínu fyrstu jólavakt. Gunnar var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í síðdegisútvarpinu.
Gunnar segir að þegar hann mætti á þessa jólavakt hafi hún í raun verið í fyrstu eins og hver önnur valt en síðan breyttust aðstæður skyndilega og átök brutust út á meðal fanganna. Segir Gunnar að vegna þessa átaka hafi þurft að loka einn eða tvo fanga inni í einangrun og eftir þetta hafi Gunnar aldrei tekið jól eða aðra hátíðadaga eins alvarlega og hann gerði áður. Hann hafi í raun losnað úr þeim rútínum sem fylgdu þessum dögum svo segja má að þessi atburður hafi markað hann til frambúðar.
Fangar sem eiga fjölskyldur heima eru órólegir á hátíðisdögum
Gunnar Valur segir jólin venjulega farið vel fram í fangelsum landsins. Þar sé haldin jólamessa fyrir fanganna og starfsmenn fangelsisins auk þess sem Samhjálp færi föngunum jólagjafir.
Hann segir fanganna ekki láta svo illa af vistinni í fangelsinu yfir hátíðar enda séu jólin haldin hátíðleg þar eins og annars staðar. Það séu helst þeir sem eigi fjölskyldur heima sem eigi erfitt á þessum tímum og það sé auðvitað vel skiljanlegt.
Aðbúnaður fanga er almennt góður og allt gert til að gera vistina bærilega
Hvað aðbúnað fanga almennt varðar þá segir Gunnar að hann geti ekki annað sagt en að aðbúnaður í fangelsum sé almennt góður og það sé allt gert til þess að vistin þar sé sem bærilegust fyrir þá sem þar þurfa að dvelja.
Hlusta má á ítarlegri umræður í spilaranum hér að neðan