Fyrsti áfangi uppbyggingar Nýs Landspítala fullfjármagnaður

Stýrihópur um skipulag framkvæmda við Landspítala og annarra sérhæfðra sjúkrahúsa hefur kynnt heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra uppfærða heildaráætlun Nýs Landspítala ohf. (hér eftir nefnt NLSH). Heildaráætlun NLSH kom síðast út haustið 2022.

Í nýrri heildaráætlun kemur fram að heildaráætlun NLSH standist kostnaðaráætlanir, með einungis 0,6% fráviki. Það er óveruleg hlutfallsleg breyting í ljósi heildarumfangs verkefna NLSH og í ljósi krefjandi aðstæðna á heimsmarkaði. Þá skal einnig bent á að umtalsverðar hækkanir hafa verið á öllum megin vísitölum frá fyrri áætlun. Fylgir breytingin á heildarkostnaðaráætlun NLSH því almennri verðlagsþróun hér á landi frá október 2022 til febrúar 2024.

Uppbygging Landspítala er ein umfangsmesta innviðauppbygging sem farið hefur fram hér á landi. Heildarfjárfestingin dreifist yfir langt uppbyggingartímabil, sem hófst árið 2010 og nær til ársins 2030. 

Nýr meðferðarkjarni sprettur upp

Mikil uppbygging hefur átt sér stað við Hringbraut og nýr meðferðarkjarni sprettur upp. Gert er ráð fyrir að byggingaframkvæmdum ljúki við nýjan meðferðarkjarna í árslok 2027 og í kjölfarið hefst yfirfærslutími þannig að spítalinn geti hafið starfsemi með nýjum tækjakosti og búnaði. Unnið er nú þegar að skipulagningu flutninga með erlendum sérfræðingum.

Undir Hringbrautarverkefni falla meðferðarkjarni, rannsóknahús, bílastæða- og tæknihús, bílakjallari og ýmis stofnkerfi. Auk þess gatna-, jarðvegs- og veituframkvæmdir og sjúkrahótel sem tekið var í notkun 2019. Heildarkostnaðaráætlun meðferðarkjarnans sem er stærsta nýbyggingin eru 72 ma.kr. en um síðustu áramót hafði verið unnið fyrir 22 ma.kr. Kostnaðaráætlun rannsóknahússins er 20,5 ma.kr., bílastæða- og tæknihússins 5,7 ma.kr. og bílakjallarans 2,5 ma.kr. Þá er gert ráð fyrir 9 ma.kr. í stofnkerfi tengt m.a. gatnagerð, jarðvegsframkvæmdum, tengigöngum og varaafli. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila