
Ef alþjóðavæðingin gengur of langt hér á landi mun það að öllum líkindum enda með miklu uppgjöri þar sem alþjóðavæðingin verður brotin á bak aftur. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ögmundar Jónassonar fyrrverandi ráðherra í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í dag.
Ögmundur byrjaði á að rifja upp upphaf alþjóðavæðingarinnar sem hann segir að eigi sér í raun langa sögu.
Síðan upp úr árinu 2010 ágerist alþjóðavæðingin þegar fjölmargir alþjóðasamingar eru gerðir á milli ýmissa landa. Samingarnir eru því marki brenndir að keyra þjóðríkið niður og upphefja stórkapítalið þar sem reglurnar séu settar.
„og þar náttúrulega fáum við kórónuna á þessu regluverki frá Davos í Sviss þar sem auðkýfingarnir sitja saman og sjá fyrir sér heiminn grundvallast á þessu og ástæðan fyrir því að ég hef viljað varðveita íslenskt fullveldi er ekki þjóðernisleg í einhverjum þröngum skilningi heldur fyrst og fremst lýðræðisleg vegna þess að til þess að reisa þröskulda í vegi fjármagnsins þá þarftu að hafa einhverja umgjörð. Alveg eins og við höfum sveitarfélög þar sem er ákveðin umgjörð þar sem hægt er að setja reglur og svo framvegis. Þetta geta menn líka í þjóðríkinu og þess vegna skiptir fullveldið máli“
Hann segir að alþjóðavæðingin eins og hann sjái hana gengur út að lækka múra þessara umgjarða, það sé það sem sé að gerast núna.
Stjórnmálamennirnir að verða ónæmir fyrir þjóðinni
Hann segir að það sem muni gerast sé að gangi alþjóðavæðingin of langt muni það enda með miklu uppgjöri.
„ef gengið er miklu lengra í þá átt sem alþjóðavæðingarsinnar vilja stefna þá mun verða mikið uppgjör. Hér á öldinni sem leið þá svaraði almenningur með því að þjóðnýta eignir sem taldar voru illa fengnar eða væru ekki í réttum höndum og þetta er sá heimur sem verið er að stefna okkur inn í“segir Ögmundur.
Hann segir stjórnmálamenn vera á mjög þunnum ís þegar kemur að því að láta erlent vald yfir sig ganga
„Ég held að almenningur sé alveg með það á hreinu hvernig hann vilji hafa þetta og þjóðin er bara á allt öðru máli en stofnanalegu stjórnmálin. Stjórnmálin á Alþingi og í sveitastjórnum eru bara verða orðin ónæm fyrir þjóðinni og ef það verður þannig of lengi þá stefnir í átök“segir Ögmundur.
Hlusta má á nánari umræður um alþjóðavæðinguna hér í spilaranum að neðan