Geirmundur Valtýsson með öðruvísi tónleika í Salnum í Kópavogi

Geirmundur Valtýsson hinn eini sanni ætlar næstkomandi laugardagskvöld þann 25.mars kl.20:00 að halda öðruvísi tónleika í Salnum í Kópavogi ásamt hjómsveit sinni. Í síðdegisþættinum ræddi Arnþrúður Karlsdóttir við Geirmund sem sagði frá því að á tónleikunum sé ætlunin að láta tónleikagesti um sönginn, þar af leiðandi verða tónleikarnir svolítið öðruvísi en þeir tónleikar sem hann er vanur að halda og verður texta laganna varpað á skjá svo allir geti sungið með.

Fyrir utan að vera sveiflukóngur Íslands er Geirmundur sem hóf ferilinn aðeins fjórtán ára að aldri einnig sannkallaður konungur sveitaballamenningarinnar. Þeir sem hafa sótt hin frægu sveitaböll með geirmundir vita að sveiflan er slík að Geirmundur nær hreinilega öllum út á gólfið, hvort sem þeir eru fimmtán ára eða níræðir. Hann segist sakna þeirrar sveitaballamenningar sem var en hann segir að blómatími sveitaballanna hafi verið á milli 1970 og 1980, þar hafi bókstaflega allt verið vitlaust og mikið að gera.

Geirmundur hefur einnig nokkrum sinnum sent lög í Söngvakeppni sjónvarpsins eins og Lífsdansinn og með vaxandi þrá og fleiri og náð þar ágætum árangri oft 3-4 sæti þó ekki hafi lögin verið valin sem framlag Íslands í Eurovision. Nú í síðustu keppni sendi hann einnig lag en það var lagið Hlið við hlið. Hann segir ákaflega leiðinlegt að þeir sem sendi inn lög sé mörgum hverjum rutt út af borðinu strax og aðrir flytjendur sem ekki hafi sent inn lag hafi verið beðnir af RÚV að senda inn lag. Hann segist telja að sá háttur hafi því miður verið hafður á í all nokkur skipti undanfarin ár. Lagið sem hann hafi sent núna inn í keppnina hafi ekki borið einkenni þess að vera lag eftir Geirmund og það hafi Geirmundur gert meðvitað og vonað að þannig gæti lagið komist áfram en það hafi þó ekki orðið raunin.

Þá hefur Geirmundur í tvö skipti átt Þjóðhátíðarlög á þjóðhátíðinni í Eyjum sem hafa átt miklum vinsældum að fagna og hljóma í tjöldum í Dalnum hverja einustu Verslunarmannahelgi.

Hann segir að ekki þýði að gráta þau örlög og horfir eins og honum einum er lagið björtum augum fram á veginn og einbeitir sér núna að tónleikahaldinu. Sem fyrr segir verða tónleikarnir haldnir í Salnum næstkomandi laugardagskvöld kl.20:00 en þeir sem vilja kaupa miða á viðburðinn er hægt að smella hér.

Hér að neðan má heyra viðtalið við Geirmund og einnig nokkur af bestu lögum Geirmundar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila