Gengjaátökin halda áfram – Reyk og eldsprengjum varpað á íbúðarhús

Átök tveggja gengja sem hófust með hnífaárás á Bankastræti Club hafa haldið áfram linnulaust undanfarna daga og í nótt var reyksprengju kastað inn um glugga íbúðarhúss í Reykjavík og var tilraun gerð til þess að varpa eldsprengju inn um glugga á íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu náðist að afstýra því að eldsprengjunni yrði varpað á húsið en sambærilegum sprengjum hefur verið varpað á önnur hús undanfarna daga. Lögregla telur ljóst að málin tengist öll umræddri hnífaárás sem og einnig hótanir um frekari árásir og ofbeldi sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum.

Útvarp Saga hefur sent fyrirspurn um stöðu rannsókna á þeim ofbeldis, hótana og skemmdarverka sem tengjast árásinni á Bankastræti Club en ekki hafa enn borist svör hvað þau mál varðar.

Vitað er að deilurnar milli þeirra hópa sem nú herja hvor á annan hafa staðið lengi yfir áður en árásin á Bankastræti Club var gerð og tengist annar hópurinn samkvæmt heimildum dyravarðafyrirtæki sem rekið er af eldri karlmanni, Hilmari Leifssyni sem talinn er „einn af hinum stóru“ í undirheimum Reykjavíkur. Þetta mun ekki vera í fyrsta sinn sem hópar tengdir þeim manni lendir saman við aðra slíka glæpahópa en fyrir um sjö árum komu hópar tengdir manninum meðal annars við sögu í hópslagsmálum á Café Milano.

Deila