Gengur ekki að hægt sé að vísa til efnahagsástands í Venesúela og nota sem rök fyrir móttöku flóttafólks

Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur,þingmaður Flokks fólksins og formaður Orkan Okkar

Frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á lögum um útlendinga gengur ekki nógu langt. Taka þarf til dæmis á því að hingað séu að koma fjölmennir hópar frá Venesúela sem fá stöðu flóttamanna á grundvelli gengins úrskurðar kærunefndar útlendingamála þar sem vísað sé fyrst og fremst til efnahagsástands þar í landi. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Eyjólfs Ármannssonar þingmanns Flokks fólksins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Eyjólfur segir að hann telji eitt af stóru vandamálunum í móttökukerfinu hér á landi sé að hingað séu að koma stórir hópar af fólki frá Venesúela og fá stöðu flóttamanna á grunvelli fyrrnefnds úrskurðar kærunefndar útlendingamála sem vísar til þess að veita beri fólkinu vernd vegna efnahagsástandsins í Venesúela.

Þá bendir Eyjólfur á að skoða beri umsókn hvers og eins en ekki hópa í heild og meta umsóknina út frá stöðu viðkomandi í sínu heimalandi.

Flóttamaður er samkvæmt skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) frá 1951 og viðauka hans frá 1967 skilgreindur sem; sá sem er utan við heimaland sitt og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum, eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands. Flóttamaður getur einnig verið sá sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann hafði reglulegt aðsetur, vegna ofsókna og getur ekki eða vill ekki, vegna ótta við slíka atburði, hverfa aftur þangað.

Í ljósi skilgreiningarinnar sé augljóst að mati Eyjólfs að ekki sé hægt að skilgreina fólk sem flýr í hópum til Íslands vegna bágs efnahagsástand sem flóttamenn. Því þurfi að taka úrskurð kærunefndar útlendingamála úr sambandi og koma í veg fyrir að hér hópist fólk þúsundum saman og fái stöðu flóttamanna ásamt viðbótarvernd á þeim grundvelli.

Eyjólfur bendir á að þeim sem komi frá Venesúela fari sífelt fjölgandi og nefnir sem dæmi að allt árið 2021 hafi umsóknir um alþjóðlega vernd fólks frá Venesúela verið 361 en frá janúar til nóvember í fyrra hafi þær verið 966 talsins. Í nóvember síðastliðnum hafi svo fleiri umsóknir frá fólki frá Venesúela komið inn á borð heldur en frá fólki frá Úkraínu þar sem stríð stendur yfir.

„þetta frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra tekur ekki á þessu og þess vegna erum við með þessa breytingartillögu um það að það sé ekki hægt að leggja til grundvallar efnahagsástand ríkis, heldur að þeir hafi ástæðuríkan ótta um að verða ofsóttir“ segir Eyjólfur.

Hann segir að málið sé í raun ekki flókið því Ísland eigi að standa við sínar skuldbindingar sem skrifað hefur verið undir og sinna þeim en ekki hafa sérreglur sem íþyngja öllu kerfinu og laði að fólk sem ekki sé einu sinni vitað hvort séu raunverulegir flóttamenn eins og dæmin sanni.

Hann bendir á að þau lönd sem hafi tekið inn mikinn fjölda fólks eins og til dæmis Svíþjóð ráði ekki við ástandið og alger ringulreið hafur skapast og því hafi Svíar hert sínar reglur.

„og Evópusambandið borgar Tyrklandi milljarða evra svo fólkið frá Sýrlandi í flóttamannabúðunum í suðaustur Tyrklandi komi ekki yfir til Evrópu, svo er ástandið í Svíþjóð eins og það er og margir líkja því við borgarastyrjöld þar sem glæpagengi berjast og guð má vita hvað. Það er ljóst að við getum ekki tekið við þúsundum manna ár eftir ár“ segir Eyjólfur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila