Greifarnir gefa út sumarlag á miðjum vetri – Kuldakastið kveikjan að laginu

Það er varla til það mannsbarn á Íslandi sem ekki þekkir Greifana frá Húsavík sem reyndar í upphafi, árið 1983 kölluðu sig Special treatment. Hljómsveitin sem skemmt hefur landanum í gegnum áratugina er þessa dagana að senda frá sér nýtt lag og af því tilefni ræddi Arnþrúður Karlsdóttir við Kristján Viðar Haraldsson eða Vidda Greifa eins og hann er jafnan kallaður í síðdegisútvarpinu.

Viddi sagði frá því í þættinum að fyrst þegar þeir hófu að spila sem Special treatment þá sungu þeir aðeins á ensku en tóku algera U-beygju árið 1986 þegar þeir ákváðu að endurnefna hljómsveitina Greifana og fóru þá eingöngu að syngja á íslensku og fengu Felix Bergsson til liðs við sveitina. Hann segir að þeir hafi orðið þjóðþekktir ótrúlega fljótt og í raun farið á nokkrum vikum frá því að vera alveg óþekktir yfir í að geta varla gengið út á götu án þess að vera eltir uppi af æstum aðdáendum.

Viddi segir að þeir hafi ekki gert sér neinar sérstakar hugmyndir um vinsældir og voru að spila fyrst og fremst af því þeim fannst það sjálfum svo skemmtilegt. Viddi telur að þegar menn hafi gaman af því að spila þá hljóti það að smita út frá sér og öðrum fari þá að finnast það skemmtilegt það sem þeir séu að gera og það sé nokkurn vegin sú uppskrift sem hljómsveitin hefur fylgt í gegnum tíðina.

Sem fyrr segir er hljómsveitin að gefa út lag sem er nokkuð sumarlegt og segir Kristján að þegar hann hafi horft á hitamælinn tíunda daginn í röð með tíu stiga frosti hafi honum þótt vanta smá yl hér á klakann og því hringt í Bjössa og þeir hist og samið lagið saman. Innblásturinn í laginu sé í raun það kuldakast sem var fyrir skömmu og stendur að einhverju leyti enn. Heyra má að lagið er alveg ekta Greifalag eins og þjóðin þekkir þau með sumarlegu ívafi en heyra má lagið og viðtalið í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila