Fólk verður því miður að horfast í augu við að það sé gríðarleg spilling á Íslandi og þó hópurinn sem tengist spillingunni sé ekki stór virðast þræðir spillingarinnar liggja úti um allt. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ásthildar Lóu Þórsdóttur formanns Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmanns Flokks fólksins í þætti Hauks Haukssonar í dag.
Áshildur segir að það sem verra sé að hér komist menn upp með spillinguna.
„munurinn á spillingunni hér og í öðrum löndum sé hins vegar sá að hér sé almennt ekki um mútur undir borðið að ræða þegar kemur að spillingu en svo er þetta spurningin kannski um hvernig mútur er skilgreint, hvað sé frændhygli og vinhygli og svo framvegis. Hér er þetta meira þannig að það er fólk sem að kemur sér í aðstæður þar sem það er allt í einu komið á mjög feitan spena og ekkert endilega fyrir eigin dugnað“ segir Ásthildur.
Ísland er ekki land tækifæranna fyrir alla
Hún bendir á að það sé einmitt það sem sjálfstæðishugsjónin gangi út á að menn eigi að geta átt jöfn tækifæri á að komast á góðan stað í lífinu og að koma sér áfram en það sé hreinlega ekki rétt. Ísland sé ekki land tækifæranna fyrir alla og fólk þurfi að vera nokkuð vel tengt til þess að Ísland sé land tækifæranna fyrir það og þannig eigi það auðvitað ekki að vera.
„þannig það er mjög stór barátta sem við stöndum frammi fyrir og ef við viljum breyta Íslandi þá þurfa að vera hér afleiðingar fyrir þá, sem eru að valda öðrum skaða“ Ásthildur Lóa.
Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan