Grindvíkingar geta sótt um aðgang að húsum sínum á Ísland.is

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur sent frá sér tilkynningu þar sem greint er frá því að verið sé að bæta þjónustu við Grindvíkinga með því að auðvelda þeim það ferli sem þarf að fara í til þess að gæta að húsum sínum og öðrum eignum á svæðinu. Þessi viðbótarþjónusta var einnig kynnt á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Á fundinum var einnig Katrín Jakobsdóttir þar sem hún ítrekaði mikilvægi þess að Grindvíkingar sem eru í húsnæðisvandræðum skrái sig í Miðstöð Grindvíkinga sem starfrækt er í Tollhúsinu til þess að hægt sé að kortleggja hversu víðtækt húsnæðisleysi Grindvíkinga sé.

Tilkynningin er eftirfarandi:

Aðgangsbeiðnir íbúa að Grindavík á island.is

Til þess að bæta þjónustuna við Grindvíkinga sem þurfa að komast inn í Grindavík hefur nú verið tekið upp skráningarferli á island.is þar sem íbúar geta skráð sínar óskir um að komast inn í bæinn að vitja eigna sinna. 

Tekið er við þessum beiðnum í gegnum skráningarform á island.is, beiðnunum forgangsraðað og síðan er haft samband við þá aðila sem komast inn hverju sinni.

Skráningin er á

https://island.is/skraning-fyrir-tha-sem-thurfa-ad-komast-inn-i-grindavik

Þá hefur Náttúruhamfaratrygging Íslands einnig sent frá sér tilkynningu en þar segir að Náttúruhamfaratrygging Íslands sé með tvo hópa matsmannateyma sem fara með eigendum í sín hús til að meta tjón í nokkrum eignum sem eru mikið skemmdar. Náttúruhamfaratrygging Íslands hefur haft samband við þessa íbúa. Annað teymi á vegum Náttúruhamfaratryggingar hefur farið með HS Veitum að húsum þar sem heitavatnsnotkun hefur verið óeðlilega mikil undanfarið, með það fyrir augum að finna út úr því hvort um sé að ræða leka í eða við húsin. Ekki er farið inn í nein hús án þess að eigendur eða fulltrúar þeirra séu viðstaddir.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila